Tilkynntu útgöngubann úr þyrlu

Lögreglan notaði þyrlu og gjallarhorn til að tilkynna útgöngubann í …
Lögreglan notaði þyrlu og gjallarhorn til að tilkynna útgöngubann í Baltimore í nótt. AFP

Enn er útgöngubann í Baltimore. Flestir virtu bannið í nótt en einhverjir lendu þó í átökum við lögregluna eftir að það skall á. Lögreglan flaug yfir borgina í þyrlu og notaði gjallarhorn til að segja fólki að útgöngubann væri í borginni. Í gær voru 53 handteknir í borginni, 15 fyrir að brjóta útgöngubannið.

Í gær voru sex lögreglumenn ákærðir vegna dauða Freddie Gray, svarts karlmanns sem lést í haldi lögreglunnar. Í kjölfar andláts hans brutust út harkaleg mótmæli í borginni sem enduðu með miklum óeirðum. 

Á miðnætti voru götur Baltimore nánast auðar. Það er mikil breyting frá því sem verið hefur undanfarnar nætur þegar hópar óeirðarseggja hafa gengið þar um, brotist inn í verslanir, grýtt lögreglu og viðhaft mikil ólæti. Í gærkvöldi var fjölmennt á götunum og því fagnað að lögreglumennirnir hefðu verið ákærðir. 

Gray var handtekinn þann 12. apríl. Hann var 25 ára gamall. Saksóknari sagði frá því í gær að hann hefði hlotið alvarlega áverka á háls er hann var fluttur í járnum, bæði á höndum og fótum, inn í lögreglubíl. Þá hafi hann ekki verið settur í öryggisbelti sem brjóti í bága við lög.

 Lögreglufélagið í Baltimore hefur krafist óháðrar rannsóknar á málinu og segir að saksóknarinn, Marilyn Mosby sé vanhæf. Félagið gagnrýnir einnig Mosby fyrir að gefa út ákærur áður en formlegri lögreglurannsókn var lokið. 

 Lögreglumennirnir segjast saklausir. „Enginn lögreglumaður særði Gray, olli Gray skaða, og þeir eru mjög sorgmæddir vegna dauða hans,“ segir Michael Davey, formaður lögreglufélagsins, við CNN.

 Lögreglumennirnir sex eru ákærðir í ýmsum liðum og gætu átt yfir höfði sér áratuga fangelsisdóma. Mál þeirra verður tekið fyrir í lok mánaðarins. Þeir eru lausir úr haldi gegn tryggingu.

Margir fögnuðu ákærum á hendur lögreglumönnunum í Baltimore í gær …
Margir fögnuðu ákærum á hendur lögreglumönnunum í Baltimore í gær áður en útgöngubann tók gildi kl. 22. AFP
mbl.is