Losunarmarkmiðin ófullnægjandi

Losunarmarkmið þjóða heims eru ekki í samræmi við þann samdrátt …
Losunarmarkmið þjóða heims eru ekki í samræmi við þann samdrátt í losun sem er nauðsynlegur til að forðast verstu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. AFP

Áform ríkja heims um að draga úr los­un sinni á gróður­húsaloft­teg­und­um eru alls ekki nægi­lega metnaðarfull til að draga nógu mikið úr styrk kolt­ví­sýr­ings í loft­hjúpi jarðar svo að hægt verði að forðast verstu af­leiðing­ar lofts­lags­breyt­inga. Þetta er niðurstaða nýrr­ar skýrslu um lofts­lags­mál.

Sé miðað við þau fyr­ir­heit sem þjóðarleiðtog­ar hafa gefið um að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda sem veld­ur hnatt­rænni hlýn­un gæti los­un­in numið um 57-59 millj­örðum tonna kolt­ví­sýr­ingsí­gilda árið 2030, að því er kem­ur fram í skýrslu fræðimanna við London School of Economics and Political Science. Nicholas Stern, fyrr­ver­andi vara­for­seti Alþjóðabank­ans er á meðal höf­unda henn­ar.

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa hins veg­ar áætlað að los­un­in þurfi að minnka niður í um 32-44 milj­arða tonna fyr­ir 2030 svo að meiri en helm­ings­lík­ur verði á því að meðal­hlýn­un jarðar frá því fyr­ir iðnbylt­ingu verði inn­an við 2°C eins og ríki heims stefna að. Los­un­in árið 2010 nam 50 millj­örðum tonna.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að Banda­rík­in, Kína og Evr­ópu­sam­bandið, stór­tæk­ustu los­ar­ar gróður­húsaloft­teg­unda í heim­in­um. stefni nú að los­un sem gæti numið á milli 20,9-22,3 millj­örðum tonna árið 2030. Það þýðir að til að ná mark­miðum um að halda lofts­lags­breyt­ing­um í skefj­um mega önn­ur lönd ekki losa meira en 23 millj­arða tonna, sé miðað við efri mörk áætl­ana SÞ. Miðað við þau los­un­ar­mark­mið sem þau hafa sett sér verður los­un þeirra hins veg­ar nær 35 millj­örðum tonna.

Þetta þýðir sam­kvæmt skýrslu­höf­und­um að „veru­leg­ar lík­ur“ séu á því að hlýn­un jarðar muni nema meira en 2°C. Lofts­lags­nefnd SÞ áætl­ar að hlýn­un­in gæti numið allt að 4,8°C á þess­ari öld sem hefði al­var­leg­ar af­leiðing­ar eins og versn­andi þurrka og flóð auk veru­legr­ar hækk­un­ar á yf­ir­borði sjáv­ar í för með sér.

mbl.is