Höfuðborgirnar á Norðurlöndunum vaxa hratt en þær vilja allar vaxa innávið með grænum áherslum, óháð því hvort að vinstri- eða hægriflokkar halda um stjórnvölinn, að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Fulltrúar höfuðborganna funduðu um loftslagsbreytingar í Reykjavík í morgun.
Á fundinum ræddu borgarstjóri, varaborgarstjórar og embættismenn frá norrænu höfuðborgunum um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Dagur segir í samtali við mbl.is að það séu forréttindi að eiga slíka nágranna en þeir séu allir í fremstu röð hvað varðar borgarþróun og umhverfismál. Borgirnar hafi ólíka styrkleika en áhugavert sé að sjá hversu mikið þær eigi sameiginlegt í að takast á við loftslags- og umhverfismál og þróun.
„Þetta eru hraðvaxtarsvæði og höfuðborgirnar leiða efnahagsþróunina í hverju landi fyrir sig. Þær eru allar að vaxa mjög hratt en þær eru allar að reyna að gera það innávið og með mjög grænum áherslum. Þær leggja áherslu á gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Þær eru að reyna að draga úr umferð einkamáli,“ segir Dagur.
Sérstaklega upplýsandi segir hann að þar skipti engu máli hvort að flokkar sem teljast til hægri eða vinstri séu við völd í borgunum.
„Þessar grænu áherslur ganga alveg þvert á flokka. Kannski er engin borg sem bannar ný bílastæði í tengslum við nýja uppbyggingu og fjarlægir gömul eins og Osló sem hefur verið stýrt af hægriflokkum í átta ár. Það er líka mjög upplýsandi að fólk, hvar í flokki sem það stendur, er orðið býsna sammála um hvernig eigi að þróa borgir til þess að ná markmiðum í umhverfismálum og lífsgæðum,“ segir borgarstjóri.
Aðgerðir til að liðka fyrir umferð hjólandi og gangandi og draga úr vægi einkabílsins hafa gjarnan mætt töluverðri gagnrýni í Reykjavík. Dagur segir að umræðan um þessi mál sé til staðar í öllum höfuðborgunum og það sem lúti að bílastæðamálum sé oft það umdeildasta. Eftir því sem afleiðingar loftslagsbreytinga verða áþreifanlegri hins vegar, virðist afstaða almennings breytast.
„Það sem er athyglisvert er að bæði íbúar í Kaupmannahöfn og Osló hafa verið að taka þessi mál fastari tökum eftir ítrekuð flóð í Kaupmannahöfn og miklar skemmdir vegna breytinga á veðurfari í Osló. Fólk upplifði einfaldlega að borgunum og fjárhagslegum hagsmunum væri ógnað með þeim afleiðingum sem eru tengdar við hækkandi sjávarborð og hitastig. Viðhorfið er líka að breytast á meðal almennings í þessum borgum eftir því sem ég heyri best,“ segir Dagur.
Þegar kemur að orkuframleiðslu standa Reykvíkingar framarlega borið saman við hinar höfuðborgirnar þegar kemur að loftslagsmálum. Hitaveitan og græn orka þýðir að lítill útblástur skapast af húshitun. Þegar kemur að samgöngumálum standa nágrannaborgirnar hins vegar mun framar, að sögn borgarstjóra.
„Við höfum sett okkur markmið og verið að fjölga þeim sem nota Strætó og hjóla í fyrsta skipti í mjög langan tíma en við erum ekki með tærnar þar sem þessar borgir hafa hælana. Það sama má segja þegar við berum okkur saman við jafnstór borgarsvæði á Norðurlöndum eins og Reykjavíkursvæðið er. Þar verðum við einfaldlega að gera betur, í gegnum Strætó, uppbyggingu hjólastíga og skipulagsmálin, ef við ætlum að ná þeim árangri sem við viljum og vera sú græna borg sem við eigum að stefna að því að vera,“ segir Dagur.