Hermenn hreinsuðu strendur landsins

Hópurinn henti um þremur tonnum af rusli.
Hópurinn henti um þremur tonnum af rusli. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er nú í fullum gangi en hún hófst að nýju 13. apríl síðastliðinn. Að þessu sinni er það flugsveit bandaríska flughersins sem sinnir verkefninu og gáfu sumir þeirra sér tíma til þess að hreinsa rusl úr fjörum á Suðurnesjum.

Sendiráð Bandaríkjanna hér á landi birti í dag færslu á Facebooksíðu sinni þar sem segir frá því að liðsmenn flugsveitar bandaríska flughersins hafi tekið höndum saman með Tomma Knúts í Bláa hernum og veittu aðstoð sína við að hreinsa rusl úr fjörum á Suðurnesjum. Eru hermennirnir sagðir hafa gengið „vasklega til verks“ og stútfyllt tvær kerrur af rusli eftir að hafa eytt degi við hreinsunarstörf.

Er í færslunni meðal annars vitnað til orða Tomma Knúts sem áætlar að hópurinn hafi alls borið þrjú tonn af rusli frá ströndinni og í kerrurnar.

Alls taka um 200 liðsmenn bandaríska flughersins þátt í loftrýmisgæslunni og til viðbótar eru starfsmenn frá stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi. Með flugsveitinni hingað til lands komu fjórar F-15 orrustuþotur. Þá er einnig ein eldsneytisbirgðaflugvél, af gerðinni KC-135, staðsett hér á landi í tengslum við verkefnið.

Sjá má fleiri myndir af hreinsunarstarfinu á vefsíðu bandaríska flughersins.

mbl.is