Þúsundir söfnuðust saman í Long Island í New York í Bandaríkjunum í dag þegar að lögreglumaður sem lést eftir að hann var skotinn í höfuðið af meintum glæpamanni var borinn til grafar.
Lögreglumaðurinn hét Brian Moore og var 25 ára gamall þegar hann lést.
Moore er þriðji lögreglumaðurinn til þess að vera myrtur í New York síðan í desember. Hann var óeinkennisklæddur og sat í ómerktum bíl ásamt öðrum lögreglumanni þegar hann var skotinn í Queens á laugardaginn. Moore lést á sjúkrahúsi tveimur dögum síðar.
Borgarstjóri New York, Bill de Blasio og lögreglustjórinn Bill Brattonn voru viðstaddir útförina í dag.
„Þetta er skelfileg og ógnvekjandi áminning um fórnina sem svo margir menn og konur í lögreglunni þurfa að færa. Hættan í starfinu verður æ augljósari,“ sagði fylkisstjóri New York, Andrew Cuomo í dag.
Demetrius Blackwell, fyrrum fangi og atvinnuglæpamaður, er grunaður um að hafa myrt Moore. Hann er 35 ára. Blackwell var handtekinn stuttu eftir skotárásina og verður ákærður fyrir morðið á Moore. Á hann jafnframt að hafa skotið að lögreglumönnum þegar þeir reyndu að elta hann.
20. desember á síðasta ári voru tveir lögreglumenn skotnir til bana í New York er þeir sátu í lögreglubíl. Maðurinn sem skaut var svartur og sagðist hafa verið að hefna fyrir líf allra þeirra svörtu Bandaríkjamanna sem hafa látið lífið í haldi lögreglu.