Svartur maður í Suður Karólínu særðist alvarlega eftir að hvítur lögreglumaður skaut hann í hálsinn á fimmtudaginn. Lögreglumaðurinn var að svara neyðarkalli mannsins eftir að brotist var inn í hús hans.
Lögregluyfirvöld í Charleston í Suður Karólínu báðust fljótt og örugglega afsökunar á mistökunum. „Okkur þykir þetta eins leitt og hægt er,“ sagði lögreglustjórinn James Alton Cannon Jr. í gær. Rúmur mánuður er síðan að lögreglan í Charleston komst í heimsfréttirnar eftir að hvítur lögreglumaður skaut svartan mann til bana sem var að hlaupa burt frá lögreglumanninum.
„Það sem gerir þetta enn meiri harmleik fyrir okkur er það að einhver kallaði eftir hjálp og við enduðum á því að særa hann alvarlega,“ sagði Cannon í gær.
Fórnarlamb lögreglumannsins, Bryan Heyward, hringdi í Neyðarlínuna um klukkan 11 að morgni fimmtudags til þess að tilkynna lögreglu það að vopnaðir menn væru að reyna að komast inn í hús hans og móður hans.
„Þetta er neyðartilvik og þeir eru með byssur,“ sagði Heyward í samtali við Neyðarlínuna samkvæmt upptöku.
Tveir lögreglumenn mættu á svæðið og var þeim sagt að heyrst hafi í skotum og að tveir svartir menn hefðu sést flýja í gegnum bakgarðinn. Lögreglumennirnir fóru bakvið húsið og sáu augljósar skemmdir á glugga og bakhurð.
Þá birtist Heyward, sem er 26 ára gamall, í hurðinni. Hann hélt á skammbyssu sem hann hafði notað til þess að verja sig að sögn Cannon. Lögreglumaðurinn Keith Tyner sagði honum að leggja byssuna niður.
Heyward gerði það ekki strax og skaut lögreglumaðurinn tvisvar og hæfði Heyward í hálsinn. Ekki hefur verið gefið upp hversu langur tími leið frá viðvörun Tyner þangað til Heyward var skotinn.
Heyward var fluttur á sjúkrahús og þar liggur hann nú á gjörgæslu. Ættingjar og lögfræðingar Heyward sögðu í gær að hann gæti ekki talað eða hreyft neðri hluta líkamans.
Á leiðinni á sjúkrahúsið talaði Heyward við lögreglumann sem var með upptökutæki á sér. Á tuttugu mínútna upptökunni má heyra Heyward tala um atvikið en upptakan var spiluð opinberlega í gær.
„Lögreglumaðurinn gerði þetta en það var óvart,“ sagði Heyward. „Ég hefði átt að leggja byssuna frá mér en ég gerði það ekki.“
Heyward sagði lögreglu einnig að hann hafi skotið að innbrotsþjófunum eftir að þeir skutu að honum. Þeir flúðu heimilið á hjólum.
Fulltrúar Heyward fjölskyldunnar sögðu frá því í gær að lögreglumennirnir sem komu að heimilinu í gær hefðu einnig verið með upptökutæki. Finnst þeim forvitnilegt að upptökur úr þeim tækjum hafa ekki verið spilaðar opinberlega enda gætu þær sýnt hversu langur tími leið milli viðvörun lögreglumannsins og skotsins.
„Það er ekkert að því þegar að lögreglumenn vernda sjálfan sig og aðra þegar að lífum þeirra er ógnað,“ sagði lögfræðingurinn Chris Stewart. „En það að þeir taki sér ekki tíma til þess að sjá til þess að manneskjan sem þú ætlar að skjóta sé ekki manneskjan sem hringdi eftir hjálp er áhyggjuefni.“
Fulltrúar fjölskyldunnar sögðu einnig í gær að augljóslega hafi Heyward verið hræddur þegar hann hringdi í Neyðarlínuna og gæti ekki hafa vitað hver var að kalla á hann þegar hann stóð í hurðinni.
„Hvað mynduð þið gera?“ spurði lögfræðingurinn Justin Bamberg fjölmiðla. „Getið þið sagt með fullri vissu að ykkar fyrstu viðbrögð væri að leggja frá ykkur vopnið?“
Cannon sagði að Heyward hafi haft fullan rétt á að bera vopn þennan dag. „Að mínu mati var hann að gera það sem hann hafði rétt á að gera til þess að verja sig fyrir þessum einstaklingum sem voru að reyna að komast inn í húsið,“ sagði hann.
„Okkur finnst hann vera merkilegur ungur maður og við biðjum fyrir honum og fjölskyldu hans,“ bætti Cannon við.
Hann vildi þó ekki tjá sig um það hvort að Tyner hafi brotið reglur eða lög með því að skjóta. Málið verður rannsakað af sérstakri nefnd sem rannsakar það þegar lögreglumenn skjóta úr byssum sínum.
Nokkrum klukkustundum eftir að Heyward var skotinn handtók lögregla mann sem grunaður er um innbrotið. Hann verður ákærður fyrir innbrot og tilraun til manndráps.