„Deilunni lauk fyrir löngu“

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands er hlynntur dauðarefsingum.
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands er hlynntur dauðarefsingum. AFP

Ungverjaland getur tekið upp dauðarefsingar að nýju en aðeins ef landið gengur úr Evrópusambandinu. Þetta segir fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

„Ef að aðildarríki vill taka þetta upp, þá geta þeir það, en í þessu tilfelli þarf það að ganga úr Evrópusambandinu,“ sagði Barroso sem var forseti framkvæmdarstjórnarinnar frá árunum 2004 til 2014 í viðtali á ungversku sjónvarpsstöðinni ATV. 

Barroso sagði að það væri einfaldlega ekki hægt að taka upp dauðarefsingar og vera meðlimur í Evrópusambandinu. „Deilunni lauk fyrir löngu, öll aðildarríki eru með þetta á hreinu.“

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur undanfarið lent í útistöðum við stjórn Evrópusambandsins vegna ýmissa stefnumála sem sögð eru stofna gildum Evrópusambandsins í hættu. Nýleg ummæli hans um dauðarefsingar vöktu hörð viðbrögð í álfunni.

Í síðasta mánuði óskaði Orbán eft­ir umræðu í  landinu um hvort taka eigi upp dauðarefs­ing­ar upp á nýj­an leik í Ung­verjalandi. Hann telur refs­ing­ar allt of veik­ar í land­inu. Eftir að starfsmaður verslunar var myrtur á hryllilegan hátt í kjölfar ráns sagði Orbán að dauðarefsingar ættu að vera „á dagskránni“.

Í útvarpsviðtali á föstudaginn sagði Orbán að aðildarríki Evrópusambandsins ættu að geta ákveðið atriði sem þessi sjálf. 

„Ef við getum verndað borgarana án þess að taka aftur upp dauðarefsingu, þá er það gott. En ef það virkar ekki, þá ætti að taka hana upp að nýju,“ sagði Orbán. 

Ung­verj­ar af­námu dauðarefs­ing­ar við lok komm­ún­ism­ans árið 1990.

Fyrri frétt mbl.is:

Juncker varar Orban við

mbl.is