Pólitískur aðgerðarsinni var tekinn af lífi í Pakistan í dag en hann var dæmdur sekur um morð árið 1999.
Saulat Ali Khan, einnig þekktur undir heitinu Saulat Mirza, var hengdur klukkan 4:30 að staðartíma í Mach fangelsinu í Baluchistan héraði en hann hefur setið í því fangelsi frá því hann var dæmdur til dauða.
Hengja átti Mirza 19. mars sl. en aftökunni var frestað í nokkur skipti á grundvelli heilsufarssjónarmiða. Mirza hafði þá komið fram í nokkrum myndskeiðum þar sem hann réðst harkalega gegn stærsta stjórnamálaflokkinum í Karachi, Muttahida Qaumi Movement (MQM), en hann starfaði áður með flokkum.
Í myndskeiðunum sakar hann formann flokksins, Altaf Hussain, sem hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Lundúnum frá árinu 1992, um að hafa fyrirskipað sér að fremja morðið en hann myrti háttsettan mann hjá orkufyrirtæki borgarinnar. Ekki hefur verið gefið upp hver tók myndskeiðin né heldur hver birti þau.
Hussain neitar ásökunum Mirzas í viðtali sem birt var í öllum helstum fréttamiðlum Pakistans.
MQM er valdamesti stjórnmálaflokkurinn í Karachi, stærstu borg Pakistans, en flokkurinn er sakaður um að reka glæpastarfsemi í borginni.
Pakistönsk yfirvöld hafa tekið yfir 100 fanga af lífi frá því banni við aftökum á föngum sem hafa verið dæmdir á grundvelli hryðjuverkalaga, var aflétt í landinu í lok desember eftir fjöldamorð talibana á skólabörnum í Peshawar.
Samkvæmt Amnesty International eru yfir átta þúsund fangar á dauðadeildum í Pakistan.