Deilt um úrskurð forseta

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis hefur staðið í ströngu í …
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis hefur staðið í ströngu í dag vegna breytingatillögu við rammaáætlun.

Stjórnarandstæðingar gagnrýna forseta Alþingis harðlega fyrir fundarstjórn sína í tengslum við umræður um rammaáætlun. Við upphaf umræðunnar las forsetinn upp úrskurð sinn um athugasemdir stjórnarandstöðunnar um lögmæti breytingartillögu án þess að hún fengi kost á að fara yfir hann.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, komst að þeirri niðurstöðu að breytingartillaga atvinnuveganefndar við þingsályktunartillögu umhverfisráðherra um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk stæðist lög um þingsköp. Þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu dregið lögmæti breytingartillögunnar í efa. Áður hafði tillögu um að taka málið af dagskrá þingsins verið felld.

Áður en umræða um tillöguna átti að hefjast las forsetinn upp úrskurð sinn í nokkuð löngu máli. Í kjölfarið komu stjórnarandstæðingur í pontu einn af örðum til að gagnrýna þessi vinnubrögð forsetans. Óásættanlegt væri að úrskurðurinn væri kynntur þingmönnum munnlega úr ræðustól án þess að þeir fengju tækifæri til að gaumgæfa úrskurðinn og bregðast við. Sumir þingmenn sögðust ekki hafa séð úrskurðinn áður en þingfundur. Kröfðust þeir þess að fá svigrúm til að fara yfir úrskurðinn áður en umræða færi fram um tillöguna. Forseti yrði að kalla þingflokksformenn saman til að ræða framhald málsins.

Forseti Alþingis sagðist hafa reynt að vinna úrskurð sinn af kostgæfni og kallað til sérfræðinga sér til aðstoðar. Ekki væri um lögfræðilegt álit að ræða heldur úrskurð um álitaefni. Úrskurður hans væri endanlegur en ef þingmenn væru ósáttir við hann gætu þeir lagt fram frávísunartillögu sem greidd yrðu atkvæði um við lok umræðunnar.

Umræðan um tillögu Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, er nú hafin.

mbl.is

Bloggað um fréttina