Kostir færðir aftur til nýtingar

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Rétt væri að færa átta virkjanakosti í nýtingarflokk rammaáætlunar að mati Samorku en ekki aðeins þá sem fimm sem meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur lagt til. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna. Er í því sambandi minnt á að við afgreiðslu 2. áfanga rammaáætlunar á Alþingi hafi sex kostir verið færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Áður hafi tólf virkjanakostir verið færðir frá nýtingu til verndar í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta.

„Samorka hefur ítrekað gagnrýnt þessa meðhöndlun á faglegum niðurstöðum 2. áfanga verkefnisstjórnar. Undir þá gagnrýni hafa ýmsir aðrir tekið, t.d. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Samorka hefur þó aldrei haldið því fram að Alþingi hefði ekki lagalega heimild til að gera umræddar breytingar. Forsenda sáttar um málaflokkinn hefði hins vegar, að mati Samorku, falist í því að fylgt yrði faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar,“ segir ennfremur.

Nánar á vefsíðu Samorku

mbl.is