Málsmeðferðin er ámælisverð

Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna málsmeðferð.
Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna málsmeðferð. Rax / Ragnar Axelsson

Samtök ferðaþjónustunnar telja málsmeðferð á þingsályktunartillögu varðandi áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða vera ámælisverða. Kemur þetta fram í tilkynningu frá samtökunum.

Þykir Samtökum ferðaþjónustunnar miður að meirihluti atvinnuveganefndar alþings hafi nú gert breytingar á þingsályktunartillögu sem gengur mun lengra en upprunaleg tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra hafi lagt til.

Tillaga ráðherra byggði á niðurstöðum verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, sem gerði ráð fyrir að Hvammsvirkjun færi í orkunýtingarflokk. Atvinnuveganefnd leggur hins vegar til að auk Hvammsvirkjunar verði fjórir aðrir virkjanakostir færðir í nýtingarflokk. Þessir fjórir viðbótarvirkjanakostir hafa ekki allir lokið því ferli sem lög um rammaáætlun gera ráð fyrir.

Í lögum um rammaáætlun er skýrt kveðið á um verklag við vinnu á áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða. Þá er tilgangur og markmið með rammaáætlun að ná víðtækri samfélagssátt.

Vinnubrögð sem þessi eru hins vegar ekki til þess fallin að stuðla að slíkri sátt, segir í tilkynningu.

mbl.is