Síðasti hluti Larsen B-íshellunnar á Suðurskautslandinu sem brotnaði upp árið 2002 veikist hratt og mun að líkindum eyðast fyrir lok þessa áratugar, samkvæmt rannsókn vísindamanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Talið er að íshellan hafi verið til í um 10.000 ár en hún er nú að hverfa með öllu.
Rannsóknir Ala Khazendar við Jet Propulsion Lab (JPL) NASA í Kaliforníu og félaga benda til þess að íshellan skríði nú hraðar fram, hún sé að brotna upp og stórar sprungur séu að myndast í henni. Tveir af þverjöklum hennar skríða einnig hraðar fram og þynnast hratt.
„Þó að það sé heillandi út frá sjónarmiði vísindanna að fylgjast með íshellunni verða óstöðug og brotna upp frá fremsta bekk þá eru þetta slæm tíðindi fyrir plánetuna okkar. Íshellan hefur verið til í að minnsta kosti 10.000 ár en bráðum verður hún horfin með öllu,“ segir Khazendar.
Íshellur eru nokkurs konar hliðverðir á leið jökla sem skríða niður af Suðurskautslandinu í sjóinn. Án þeirra skríða jöklarnir hraðar fram í hafið og yfirborð sjávar hækkar hraðar fyrir vikið. Khazendar segir að spá hans um framtíð Larsen B-hellunnar byggist á því að sprunga sem myndaðist og hefur víkkað í hellunni muni á endanum kljúfa hana í gegn. Dreggjarnar af hellunni muni brotna upp í hundruð borgarísjaka sem reki í burtu. Í kjölfarið muni jöklarnir eiga greiðari leið í hafið.
Í ljós kom tveir af þremur þverjöklum íshellunnar skríða nú hraðar fram og þynnast hratt. Þannig skríður sá hluti Flask-þverjökulsins sem fer hraðast yfir nú fram um 700 metra á ári.
„Þessi rannsókn á jöklum Suðurskautsskagans gefur innsýn í það hvernig íshellur sem liggja sunnar, þar sem mun meira magn af landís er að finna, munu bregðast við hlýnandi loftslagi,“ segir Eric Rignot, jöklafræðingur við JPL og einn af höfundum rannsóknarinnar.
Frétt á vef NASA um rannsóknina á Larsen B-íshellunni