Innanhússkjal sem Royal Dutch Shell hefur stuðst við í stefnumótun gerir ráð fyrir að hitastig á jörðinni muni hækka um 4 gráður til skemmri tíma og 6 gráður til lengri tíma. Sérfræðingar eru sammála um að slík hækkun myndi hafa verulegar og alvarlegar afleiðingar í för með sér, og náttúruverndarsinnar gagnrýna Shell fyrir að vinna útfrá slíkum forsendum.
Guardian sagði frá því í gær að í skjalinu er stuðst við spár frá International Energy Agency (IEA), sjálfstæðri stofnun. Skjalið virðist gera ráð fyrir því að hitastig muni hækka umfram þær 2 gráður sem ríki heims hafa komið sér saman um sem viðmið fyrir „viðráðanlega“ hækkun, en samkvæmt milliríkjanefndinni um loftslagsbreytingar (IPCC) myndi 4 gráðu hækkun fyrir árið 2100 hafa í för með sér 52-98 sentimetra hækkun sjávarborðs. Afleiðingarnar yrðu flóð, útdauði dýra- og plöntutegunda, og þá gæti hitastig á ákveðnum stöðum, t.d. á norðurskautinu og í vestur- og suðurhluta Afríku, hækkað um allt að 10 gráður.
Í skjalinu segir að fyrirtækið sjái ekki í hendi sér að stjórnvöld taki skref til að takmarka hækkunina við 2 gráður.
Náttúruverndarsinnar segja að vegna þess að fyrirtækið gangi útfrá fyrrgreindum forsendum, sé ekki hægt að taka mark á því sem það hefur fram að færa varðandi loftslagsmál.
Guardian hefur eftir Louise Rouse, samskiptasérfræðing og ráðgjafa Greenpeace, að skjalið varpi rýrð á fullyrðingar Shell um að áframhaldandi leit að olíu- og gaslindum leiði til betri lífskjara í þróunarlöndunum, þar sem þær séu orkuauðlindir vaxandi hagkerfa.
„Það er í besta falli samhengisleysi milli þess að olíufyrirtæki geri sig út fyrir að vera á bandi þróunarríkja annars vegar og að hins vegar fylgi þau eftir áætlunum sem munu hafa í för með sér hamfarakenndar loftslagsbreytingar, sem við vitum þegar að eru að hafa umtalsverð áhrif á suðurhvel heimsins.“
Shell hefur neitað að tjá sig um skjalið, en sérfræðingar innan olíuiðnaðarins sögðu í samtali við Guardian að því væri ekki ætlað að vera uppdráttur að viðskiptaáætlun. Hins vegar endurspeglaði það „trúverðugar ályktanir“ sem væri ætlað að fá stjórnendur til að velta fyrir sér útkomum sem e.t.v. væru ólíklegar til að verða að veruleika.
Fjöldi aðgerðasinna réri út að olíuborpalli Shell í höfninni í Seattle í Bandaríkjunum á laugardag til að mótmæla borunum fyrirtæksins á norðurskautinu. Ákvörðun Barack Obama Bandaríkjaforseta að heimila boranirnar hafa vakið mikla reiði umhverfisverndarsinna. Þeir segja m.a. að olíuleki myndi hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir dýraríki á svæðinu.
Obama hefur sagt að olíuframleiðsla sé „mikilvæg“ en hefur jafnframt talað fyrir því að skipta kolefnaeldsneyti út fyrir umhverfisvænni orkugjafa.