Jay Z aðstoðar mótmælendur á laun

Hjónin: Jay Z og Beyonce
Hjónin: Jay Z og Beyonce AFP

Tónlistarmaðurinn og kaupsýslumaðurinn Jay Z hefur undanfarið greitt tryggingar fyrir mótmælendur í Bandaríkjunum sem hafa verið fangelsaðir fyrir að mótmæla ofríki lögreglunnar. Hann hefur gert þetta með leynd, að sögn rithöfundarins og aðgerðarsinnans Dream Hampton.

Dream Hampton, sem vann með Jay Z að gerð æviminninga hans Decoded árið 2010 greindi frá þessu í nokkrum Twitter færslum í gær en hún eyddi þeim síðar. En líkt og annað sem fer á netið hurfu færslurnar ekki því tímaritið Complex birti þær í kjölfarið.

„Þegar okkur vantaði pening til þess að greiða tryggingar fyrir mótmælendur í Baltimore, þá hafði ég samband við Jay, líkt og ég gerði fyrir Ferugson og hann millifærði tugi þúsunda dollara innan nokkurra mínúta,“ segir í einni færslunni. 

Hún skrifar einnig að Jay Z og eiginkona hans, Beyonce, hafi skrifað ávísun upp á háa fjárhæð til þess að styðja við bakið á hreyfingunni Black Lives Matter en markmið hennar er að bæta meðferð lögreglunnar í Bandaríkjunum á svörtu fólki.

Hampton skrifaði síðar á Twitter að hún hafi eytt færslunum vegna þess að Jay Z yrði brjálaður ef hann sæi að hún væri að upplýsa um að hann tæki þátt í aðgerðunum.

En tilgangur hennar var að verja þau hjón, Jay Z og Beyonce, sem hafa verið harðlega gagnrýnd í gegnum tíðina af sumum aðgerðarsinnum fyrir að hafa sett litla sem enga peninga í málstaðinn þrátt fyrir að vera ofurrík.

Einn þeirra sem hefur gagnrýnt þau er hinn aldni tónlistarmaður  Harry Belafonte sem á sínum tíma studdi fjölskyldu Martin Luther Kings fjölskyldu á meðan mannréttindabarátta svartra í Bandaríkjunum stóð sem hæst.

AFP
AFP
mbl.is