Að minnsta kosti 28 voru skotnir í bandarísku borginni Baltimore um helgina. Níu af þeim létu lífið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa 35 verið myrtir í borginni í þessum mánuði. Það þýðir að fleiri hafi verið myrtir í borginni í þessum maímánuði heldur en í öllum öðrum mánuðum síðan 1999. Meðal þeirra sem særðust um helgina var níu ára drengur sem var skotinn í fótlegginn og unglingur sem var skotinn í handlegginn.
Enn eiga eftir að koma í ljós frekari upplýsingar um atburði helgarinnar. Að sögn fréttastofu CBS í Baltimore létu 28 lífið en dagblaðið Baltimore Sun segir þá vera 29 talsins.
„Skotárásirnar og drápin eru um alla borg. Ég held að enginn hluti borgarinnar sé ónæmur fyrir þessu,“ sagði borgarfulltrúinn William Welch í samtali við fjölmiðla. Talsmaður Stephanie Rawlings-Blake, borgarstjóra Baltimore segir að hún sé miður sín og reið vegna ofbeldisins, „sérstaklega þegar maður hugsar út í þær framfarir sem hafa orði í borginni“.
Spenna hefur verið í samskiptum lögreglu og almennings í Baltimore eftir að Freddie Gray, ungur svartur maður, lést í varðhaldi lögreglu. Aðgerðum lögreglu hefur verið mótmælt harðlega í borginni síðan þá og fyrr í mánuðinum voru sex lögreglumenn ákærðir vegna dauða Gray.