Nebraska hefur samþykkt að afnema dauðarefsingar í ríkinu eftir að þing ríkisins samþykkti bannið þrátt fyrir að ríkisstjóri Nebraska, Pete Rickett, hafi áður beitt neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir lagabreytinguna.
Nebraska er þar með komið í hóp átján annarra ríkja Bandaríkjanna, auk höfuðborgarinnar, Washington, DC, sem banna aftökur með lögum. Nebraska er hins vegar fyrsta hefðbundna íhaldsríkið (þar sem repúblikanar eru við völd) sem bannar aftökur í fjóra áratugi. Enginn fangi hefur verið tekinn af lífi í Nebraska síðan árið 1997. Tíu eru á dauðadeild í Nebraska.
Í frétt BBC kemur fram að 30 hafi greitt atkvæði með því að afnema dauðarefsingar á meðan 19 hafi verið því fylgjandi. Það er nákvæmlega sá fjöldi atkvæða sem þarf til þess að fella úr gildi neitunarvald ríkisstjórans.
Norður-Dakota, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, felldi dauðarefsingu úr gildi árið 1973 en það ríki sem síðast hætti að heimila dauðarefsingar er Maryland þar sem demókratar eru við völd. Það var árið 2013.