Hvers eiga svartir að gjalda?

Aðgerðasinni mótmælir ofbeldi lögreglu í garð svartra í New York …
Aðgerðasinni mótmælir ofbeldi lögreglu í garð svartra í New York í apríl sl. AFP

Svartir Bandaríkjamenn sem drepnir eru af lögreglu eru tvöfallt líklegri til að vera óvopnaðir en hvítir Bandaríkjamenn sem láta lífið af sömu sökum. Samkvæmt rannsókn Guardian voru 102 af þeim 464 sem fallið hafa fyrir hendi lögreglu það sem af er ári óvopnaðir.

Rannsókn blaðamanna Guardian á opinberum gögnum og fréttaflutningi leiddi í ljós að 32% svartra sem drepnir voru af lögreglu í Bandaríkjunum 2015 voru óvopnaðir, en sama átti við um 25% einstaklinga af rómönskum uppruna og 15% hvítra.

Rannsóknin bendir til þess að mun fleiri hafi verið drepnir af lögreglu en opinberar tölur gefa til kynna. Í tölfræði Guardian eru m.a. dauðsföll af völdum rafbyssa, lögreglubifreiða og uppákoma á meðan gæsluvarðhaldi stendur.

Af þeim sem hafa látið lífið af völdum lögreglu á þessu ári voru 136 svartir, 67 af rómönskum uppruna og 234 hvítir. 102 voru, líkt og áður segir, óvopnaðir. Í 95% tilvika var um að ræða karlmann.

Steven Hawkings, framkvæmdastjóri Amnesty International í Bandaríkjunum, segir niðurstöðurnar sláandi og að komast þurfi til botns í því af hverju óvopnaður svartur karlmaður sé tvöfalt líklegri til að vera skotinn af lögreglu en óvopnaður hvítur karlmaður.

Ítarlega frétt um málið og gagnvirkan gagnagrunn um dauðsföll af hendi lögreglu í Bandaríkjunum er að finna á vef Guardian.

mbl.is