Sex evrópsk olíu- og gasfyrirtæki, þar á meðal Royal Dutch Shell og BP, kalla eftir því að kolefnisgjald verði tekið upp af ríkjum heims til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af brennslu jarðefnaeldsneytis sem þau framleiða.
Stjórnendur Royal Dutch Shell, BP, Eni, Total, Statoil og BG Group segjast vilja eiga samræður við Sameinuðu þjóðirnar og viljug ríki í tengslum við loftslagssamkomulag sem stefnt er að því að ná á loftlagsþingi SÞ í París í desember. Í bréfi til Christiana Figueres, loftslagsmálastjóra SÞ, og Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, leggja þeir til að kolefnisgjald verði tekið upp og alþjóðlegt rammasamkomulag tengi það saman. Þetta fyrirkomulag telja stjórnendurnir vera vegvísi fyrir orkufyrirtæki og fjárfesta.
Ekki liggur fyrir hvaða hlutverk kolefnisgjald mun leika í samkomulagi sem fulltrúar ríkja heims vinna nú að á fundi í Bonn í Þýskalandi sem hefur staðið yfir í tvær vikur. Fabius hefur lagt áherslu á að aðildarríki samkomulagsins nái árangri strax til þess að draga úr þrýstingi á sjálfu loftslagsþinginu í desember.