Barack Obama sagði í viðtali sem sjónvarpað var í Ísrael í dag að samningaviðræður, ekki hernaðaraðgerðir, væru leiðin til að koma í veg fyrir að stjórnvöld í Íran kæmu sér upp kjarnorkuvopnum.
„Ég tel mig geta sýnt fram á, og það byggir ekki á von heldur staðreyndum og sönnunargögnum og greiningu, að besta leiðin til að koma í veg fyrir að Íran eignist kjarnorkuvopn sé sannreynanlegt strangt samkomulag,“ sagði forsetinn.
Obama sagði hernað ekki lausn vandans, jafnvel með þátttöku Bandaríkjamanna; hann myndi ef til vill tefja kjarnorkuáætlun Írana, en ekki gera út um hana.
Spurður að því hvort hann óttaðist að stjórnvöld í Ísrael gerðu árás á skotmörk í Íran án samráðs við Bandaríkin ef samkomulag næst í yfirstandandi viðræðum, sagðist forsetinn ekki vilja taka þátt í vangaveltum.
Hann sagðist hins vegar skilja áhyggjur og ótta ísraelsku þjóðarinnar.
Stefnt er að samkomulagi fyrir júnílok en stjórnvöld í Ísrael hafa sagt að Íran sé ekki treystandi til að standa við gefin loforð og útiloka ekki hernaðaraðgerðir.