92 teknir af lífi á fimm mánuðum

Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu …
Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu dauðarefsinga, þar sem fólk var hálshöggvið fyrir allra augum. Ljósmynd/Wikipedia

Yfirvöld í Sádi Arabíu létu í dag hálshöggva mann sem hafði verið dæmdur fyrir morðið á eiginkonu sinni. Þar að auki var sýrlenskur maður tekinn af lífi fyrir fíkniefnasmygl. 

Með aftökum dagsins í dag er fjöldi þeirra sem hafa verið teknir af lífi í landinu á árinu kominn upp í 92. 

Awad al-Rasheedi var dæmdur til dauða fyrir að myrða eiginkonu sína með eggvopni, samkvæmt yfirlýsingu innanríkisráðuneytis landsins. Maðurinn hafði áður verið handtekinn, þá vegna eiturlyfjaviðskipta. Í yfirlýsingunni var það, að taka líf annars, kallað „stærsta spilling á jörðinni“. Það hafði einnig áhrif á dóminn yfir manninum að hann var undir áhrifum áfengis og eiturlyfja þegar morðið var framið.

Hann var tekinn af lífi í borginni Dammam.

Hinn maðurinn sem var tekinn af lífi er sýrlenskur ríkisborgari og heitir Abdul Hadi Ahmed. Hann var dæmdur fyrir að reyna að smygla amfetamíni inn í landið. Hann var tekinn af lífi í sýslunni Jawf, í norður hluta Sádi Arabíu. 

Mannréttindasamtök hafa harðlega gagnrýnt yfirvöld í landinu síðustu misseri fyrir mikla aukningu í dauðarefsingum en á þessu ári hafa 92 verið teknir af lífi í landinu. Eru það töluvert fleiri en á síðasta ári en allt árið 2014 voru 87 teknir af lífi. 

Sarah Leah Whitson, yfirmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í miðausturlöndum og Norður Afríku gagnrýndi harðlega að fólk væri tekið af lífi fyrir glæpi eins og eiturlyfjasmygl. „Allar aftökur eru skelfilegar, en aftökur fyrir glæpi eins og eiturlyfjasmygl sem leiðir ekki til dauðsfalla eru sérstaklega svívirðilegar,“ sagði Whitson. 

Mannréttindasamtök hafa lýst yfir þeirri skoðun að ef það þarf að yfirhöfuð að viðhalda dauðarefsingum, ætti það aðeins að vera fyrir morð. 

Sharia-lög ríkja í landinu en samkvæmt þeim má taka fólk af lífi fyrir glæpi eins og eiturlyfjasmygl, nauðganir, morð, vopnuð rán og fráhvarf frá trú.

mbl.is