Rannsaki frekar áhrif á hafið

Súrnun sjávar gæti haft mikil áhrif á lífríki hans. Áhrifin …
Súrnun sjávar gæti haft mikil áhrif á lífríki hans. Áhrifin á skeldýr og þörunga neðst í fæðukeðjunni gætu haft áhrif á fiskistofna. Myndin er úr safni. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Hug­mynd­ir um áhrif lofts­lags­breyt­inga á líf­ríki sjáv­ar ein­kenn­ast af ágisk­un­um og nauðsyn­legt er að gera frek­ari rann­sókn­ir á þeim. Þetta kom fram í máli Hauks Þórs Hauks­son­ar, aðstoðarfram­kvæmda­stjóra Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), á fundi um lofts­lags­breyt­ing­ar í morg­un.

Hauk­ur Þór var einn frum­mæl­enda á opn­um fundi um áhrif lofts­lags­breyt­inga á líf­ríki sjáv­ar sem Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands stóðu fyr­ir ásamt franska sendi­ráðinu, Evr­ópu­stofu og Alþjóðamála­stofn­un Há­skóla Íslands. Hann sagði að sjáv­ar­út­veg­ur­inn væri orðinn meðvitaðir um áhrif um­hverf­isþátta og nefndi sem dæmi að SFS styrki nú rann­sókn­ir á súrn­un sjáv­ar.

Áður hafði Kelly Rigg, stofn­andi og fram­kvæmda­stýra alþjóðlegu um­hverf­is­vernd­ar­sam­tak­anna Varda Group, farið yfir hvernig höf jarðar hafi súrnað tíu sinn­um hraðar á und­an­förn­um hundrað árum en á tug­um millj­ón­um ára þar á und­an. Ástæðan er gríðarlegt magn gróður­húsaloft­teg­unda sem menn hafa losað með bruna jarðefna­eldsneyt­is sem valda breyt­ing­um á lofts­lagi jarðar­inn­ar.

Höf­in hafi tekið upp um 30% af kolt­ví­sýr­ingn­um sem menn hafi losað og líkön geri ráð fyr­ir því að þau muni súrna um 150% fyr­ir lok þess­ar­ar ald­ar. Súrn­un­in hafi áhrif á líf­ríki sjáv­ar þar sem hærra sýru­stig sé skaðlegt skeldýr­um sem hafi svo keðju­verk­andi áhrif upp fæðukeðjuna.

Helm­ingi meiri fisk­ur á hvern olíu­lítra nú

Hauk­ur Þór sagði hins veg­ar að erfitt væri að reikna ná­kvæm­lega út hvaða áhrif lofts­lags­breyt­ing­ar myndu hafa á líf­ríki sjáv­ar. Mik­il óvissa væri um þau og mikið væri um ágisk­an­ir í þeim rann­sókn­um sem hafi verið gerðar. Áhrif­in við Ísland gætu orðið já­kvæð en þau gætu einnig orðið afar nei­kvæð. 

SFS talaði fyr­ir sjálf­bær­um veiðum á grund­velli vís­inda­legr­ar ráðgjaf­ar og skil­virkr­ar fisk­veiðistjórn­un­ar. Í sam­hengi við lofts­lags­breyt­ing­ar benti hann á að eft­ir til­komu kvóta­kerf­is­ins hafi tog­ur­um fækkað um helm­ing. Þannig veidd­ist nú helm­ingi meiri fisk­ur á hvern olíu­lítra sem skip­in brenndu en fyr­ir 20-30 árum.

Þá lagði hann áherslu á að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hefðu getu til að fjár­festa í nýrri tækni. Það sama gilti um fiski­skip og bíla að nýrri skip losuðu minna af gróður­húsaloft­teg­und­um en þau eldri. Rann­sókn sem gerð var í fyrra hafi leitt í ljós að meðal­ald­ur fiski­skipa­flot­ans væri yfir 30 ár á Íslandi.

mbl.is