Þau heit sem ríki heims hafa þegar gefið um að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum duga aðeins til að fresta því að farið verði yfir hættumörk um tvö ár, samkvæmt nýrri greiningu. Stórir losendur eiga þó enn eftir að tilkynna um markmið sín.
Nú þegar hálft ár er til loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í París í desember hafa 38 ríki skilað loforðum um að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Greining sem sjálfseignastofnunin Climate Analytics hefur gert á þeim loforðum bendir til þess að samdrátturinn á losun sem þar er boðaður muni aðeins seinka því um tvö ár að styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar fari yfir þau mörk að hnattræn hlýnun verði meiri en 2°C. Það er það takmark sem ríki heims hafa sett sér til að koma í veg fyrir verstu áhrif loftslagsbreytinga.
Að óbreyttu mun styrkur gróðurhúsalofttegunda fara yfir hættuleg mörk árið 2038 í stað 2036 ef ekkert væri dregið úr losun. Enn eiga fleiri en 150 þjóðir eftir að leggja fram markmið sín, þar á meðal Íslendingar. Í þessum hópi eru stórlosendur eins og Indverjar og gæti framlag þeirra og fleiri þjóða breytt myndinni nokkuð.
Vísindamenn vara engu að síður við því að viðbúið sé að jafnvel þó að alþjóðlegt samkomulag um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda náist í París þá hrökkvi það ekki til þess að halda hlýnun jarðar innan við 2°C. Greining Climate Analytics gefur til kynna að engin heitanna 38 sem liggja fyrir séu í samræmi við 2°C hlýnun og loforð Rússa og Kanadamanna hafi 3-4°C hlýnun í för með sér.
„Þær aðgerðir og þau áform sem við höfum séð fram að þessu eru langt frá því að duga til og það verður gríðarlega erfitt að takmarka hlýnun við 2°C nema að þeim verði hraðað mikið,“ segir Bill Hare, stofnandi Climate Analytics og fyrrverandi skýrsluhöfundur loftslagsnefndar SÞ (IPCC).
Hare telur hins vegar efnahagslegir og tæknilegir möguleikar á að draga úr losun sem séu til staðar gefi von um að hægt verði að ná markmiðinu um að halda hlýnuninni í skefjum á næstu 5-10 árum ef ríkisstjórnir heims eru tilbúnar að grípa nógu hratt til aðgerða.
„Það eina sem skortir er pólitískur vilji,“ segir Hare við The Guardian.
Frétt The Guardian af greiningu á loforðum um samdrátt losunar