Seinka hlýnun aðeins um tvö ár

Börn á Indlandi kæla sig niður í mikilli hitabylgju sem …
Börn á Indlandi kæla sig niður í mikilli hitabylgju sem gengið hefur yfir landið. Indverjar eru á meðal þeirra þjóða sem eiga eftir að leggja fram heit um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. AFP

Þau heit sem ríki heims hafa þegar gefið um að draga úr los­un sinni á gróður­húsaloft­teg­und­um sem valda lofts­lags­breyt­ing­um duga aðeins til að fresta því að farið verði yfir hættu­mörk um tvö ár, sam­kvæmt nýrri grein­ingu. Stór­ir losend­ur eiga þó enn eft­ir að til­kynna um mark­mið sín. 

Nú þegar hálft ár er til lofts­lagsþings Sam­einuðu þjóðanna sem fer fram í Par­ís í des­em­ber hafa 38 ríki skilað lof­orðum um að draga úr los­un á gróður­húsaloft­teg­und­um. Grein­ing sem sjálf­seigna­stofn­un­in Clima­te Ana­lytics hef­ur gert á þeim lof­orðum bend­ir til þess að sam­drátt­ur­inn á los­un sem þar er boðaður muni aðeins seinka því um tvö ár að styrk­ur kolt­ví­sýr­ings í loft­hjúpi jarðar fari yfir þau mörk að hnatt­ræn hlýn­un verði meiri en 2°C. Það er það tak­mark sem ríki heims hafa sett sér til að koma í veg fyr­ir verstu áhrif lofts­lags­breyt­inga.

Að óbreyttu mun styrk­ur gróður­húsaloft­teg­unda fara yfir hættu­leg mörk árið 2038 í stað 2036 ef ekk­ert væri dregið úr los­un. Enn eiga fleiri en 150 þjóðir eft­ir að leggja fram mark­mið sín, þar á meðal Íslend­ing­ar. Í þess­um hópi eru stór­losend­ur eins og Ind­verj­ar og gæti fram­lag þeirra og fleiri þjóða breytt mynd­inni nokkuð.

Eina sem skort­ir er póli­tísk­ur vilji

Vís­inda­menn vara engu að síður við því að viðbúið sé að jafn­vel þó að alþjóðlegt sam­komu­lag um að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda ná­ist í Par­ís þá hrökkvi það ekki til þess að halda hlýn­un jarðar inn­an við 2°C. Grein­ing Clima­te Ana­lytics gef­ur til kynna að eng­in heit­anna 38 sem liggja fyr­ir séu í sam­ræmi við 2°C hlýn­un og lof­orð Rússa og Kan­ada­manna hafi 3-4°C hlýn­un í för með sér.

„Þær aðgerðir og þau áform sem við höf­um séð fram að þessu eru langt frá því að duga til og það verður gríðarlega erfitt að tak­marka hlýn­un við 2°C nema að þeim verði hraðað mikið,“ seg­ir Bill Hare, stofn­andi Clima­te Ana­lytics og fyrr­ver­andi skýrslu­höf­und­ur lofts­lags­nefnd­ar SÞ (IPCC).

Hare tel­ur hins veg­ar efna­hags­leg­ir og tækni­leg­ir mögu­leik­ar á að draga úr los­un sem séu til staðar gefi von um að hægt verði að ná mark­miðinu um að halda hlýn­un­inni í skefj­um á næstu 5-10 árum ef rík­is­stjórn­ir heims eru til­bún­ar að grípa nógu hratt til aðgerða.

„Það eina sem skort­ir er póli­tísk­ur vilji,“ seg­ir Hare við The Guar­di­an.

Frétt The Guar­di­an af grein­ingu á lof­orðum um sam­drátt los­un­ar

mbl.is