Ekki hefur hægt á hlýnun

Ekkert hlé hefur orðið á hnattrænni hlýnun eins og haldið …
Ekkert hlé hefur orðið á hnattrænni hlýnun eins og haldið hefur verið fram, samkvæmt uppfærðum gögnum NOAA. AFP

Gögn um hita­stig á landi og í sjó sem vís­inda­menn Haf- og lofts­lags­rann­sókna­stofn­un­ar Banda­ríkj­anna (NOAA) hafa upp­fært sýna að hnatt­ræn hlýn­un hef­ur ekki stöðvast né hef­ur hægt á henni und­an­far­in ár eins og hug­mynd­ir hafa verið um. Hlýn­un­in hef­ur verið sú sama frá miðri síðustu öld.

Lofts­lags­nefnd Sam­einuðu þjóðanna hafði jafn­vel tekið und­ir þá hug­mynd að hægt hefði á hlýn­un­inni yfir fimmtán ára tíma­bil á milli 1998 og 2012 miðað við þá sem hafði átt sér stað frá 1951. Ýmsar kenn­ing­ar hafa verið sett­ar fram um það, þar á meðal að nátt­úru­leg­ar sveifl­ur í lofts­lag­inu, aska úr eld­gos­um og að Kyrra­hafið hafi tíma­bundið drukkið í sig hit­ann.

Nú seg­ir hóp­ur vís­inda­manna frá um­hverf­is­upp­lýs­inga­miðstöð NOAA í grein sem birt­ist í tíma­rit­inu Science að ekk­ert hlé hafi átt sér stað. Þegar leiðrétt hafi verið fyr­ir skekkju í mæl­ing­um, þar á meðal þeirra sem gerðar hafa verið með skip­um og bauj­um á haf­inu, þá bendi þær ekki til þess að hlé hafi orðið á hlýn­un.

Thom­as Karl, for­stöðumaður miðstöðvar­inn­ar, seg­ir að meiri­hátt­ar upp­færsla hafi verið gerð á gagna­grunni NOAA um hita­stig. Í ljós hafi komið að ná­kvæm­ari mæl­ing­ar hafi feng­ist með bauj­um en skip­um og nú hafi verið vegið upp á móti mun­in­um á þeim. 

Þegar við bætt­ust nýj­ar mæl­ing­ar á hita­stigi á landi um all­an heim kom í ljós að þró­un­in á fyrstu fimmtán árum þess­ar­ar ald­ar er í sam­ræmi við þá sem átti sér stað á síðari helm­ingi síðustu ald­ar. Karl seg­ir að hlýn­un­in frá 1950-1999 hafi numið 0,113°C á ára­tug en frá 2000-2014 hafi hún numið 0,116°C á ára­tug.

Þró­un­in svipuð, jafn­vel miðað við metár

Þeir sem hafa reynt að grafa und­an vís­ind­un­um á bak við lofts­lags­breyt­ing­ar hafa oft vísað til „hlés­ins“ á hlýn­un. Þá hafa þeir gjarn­an látið sam­an­b­urðar­tíma­bil sín hefjast árið 1998 en það var sér­stak­lega hlýtt ár vegna óvenju­sterkra áhrifa frá El niño. Þannig virðist hlýn­un­in hafa verið minni und­an­far­in ár.

Upp­færðar töl­ur NOAA benda hins veg­ar til þess að jafn­vel þó að 1998 sé notað sem upp­hafs­ár sam­an­b­urðar sé þró­un­in ekki mjög frá­brugðin þeirri sem átti sér stað á síðustu öld. Auk þess bend­ir Karl á að nýju töl­urn­ar taki jafn­vel ekki nægi­lega vel með í reikn­ing­inn mikla hlýn­un sem hafi átt sér stað á norður­skaut­inu und­an­farið.

Frétt The Washingt­on Post af rann­sókn NOAA

mbl.is