Hæstiréttur staðfesti nálgunarbann

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms, þar sem eins árs nálgunarbann á mann var staðfest. 

Í nálgunarbanninu er lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimili hennar, mælt frá miðju hússins. Enn fremur er lagt bann við að þolandi bannsins veiti henni eftir­för, nálgist hana á almanna­færi, vinnu­stað hennar, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni sms-skeyti eða tölvu­póst, riti á síður hennar á samskiptasíðum á inter­netinu, eða setji sig á annan hátt í samband við hana til og með 15. maí 2016.

Málsatvikum er í héraðsdómi lýst þannig að hinn 13. maí 2015 hafi lögreglu borist beiðni brotaþola um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart henni. Forsaga málsins sé sú að brotaþoli og varnaraðili hafi búið saman, ásamt syni þeirra, fram á haustið 2012.

Í kjölfar sam­búðar­slita hafi varnaraðili ráðist að brotaþola, veitt henni áverka og í kjölfarið verið gert að sæta nálgunar­banni í tvo mánuði, sem hann hafi síðan brotið. Síðar, nánar tiltekið í janúar 2014, hafi varnaraðila verið gert að sæta nálgunar­banni í 12 mánuði.

Vísað er í dóma Héraðsdóms Suðurlands þar sem varnaraðili var dæmdur fyrir m.a. brot á nálgunarbanni og líkamsárásir. Einnig kemur fram að nýlega hafi verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila m.a. vegna íkveikju á þáverandi heimili brotaþola og fyrir að hafa birt nektar­myndir af brotaþola. Það sakamál er til meðferðar við Héraðsdóm Suðurlands. Einnig er vísað til þess að eftir að þessi nýjasta ákæra hafi verið gefin út hafi brotaþoli linnulítið verið áreitt með sms-skeytum og skilaboðum á Facebook og hótað munnlega.

mbl.is