„Þetta snerist um kynþátt“

Lögreglan dró upp byssu við sundlaugabakkann.
Lögreglan dró upp byssu við sundlaugabakkann. Skjáskot/Youtube

Ung stúlka sem tók upp myndband af því þegar lögregluþjónn lenti í átökum við ungmenni í sundlaugapartýi í Dallas í Bandaríkjunum um helgina, segir að framkoma lögreglunnar í garð ungmennanna hafi verið skammarleg og málið snúist um kynþátt ungmennanna.

„Ég trúi því fullkomlega að þetta mál snúist um kynþátt þar sem lögreglan snerti ekki þá sem eru hvítir,“ segir hin 13 ára Jahda Bakari í samtali við CBS. Alls voru 12 lögreglumenn kallaðir út í sundlaugapartýið eftir að kvartanir bárust vegna óláta. Myndbandið setti Bakari á netið og hafa nú um 3 milljónir manna horft á það. Má þar sjá lögregluþjón ýta ungri stúlku aðeins klædda í bikiní, í jörðina. Þegar hin ungmennin ætla að skipta sér að, dregur lögreglumaðurinn upp byssu.

„Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri að fara að meiða einhvern,“ bætir Bakari við. Stelpan sem lögreglumaðurinn ýtti í jörðina öskrar í myndbandinu á hjálp. „Hringið í mömmu mína, hringið í mömmu mína. Ó guð!“ má heyra hana hrópa á meðan lögreglumaðurinn dró hana eftir jörðinni.

„Lögreglan reyndi að fá okkur til þess að hverfa á brott en ef við hlupum í burtu, þá eltu þeir okkur,“ segir Bakari. 

Má í myndbandinu sjá lögreglumann ógna ungum pilti. „Ég nenni ekki að elta þig út um allt í þessari sól og í öllum þessum búnaði bara af því að þú vilt vera með vandræði hérna,“ segir einn lögreglumaðurinn við piltinn. 

Ungmennin voru stödd í sundlaug í nágrenninu en lögreglan var kölluð til eftir að fregnir bárust um rifrildi við sundlaugabakkann. Fulltrúi lögreglunnar segir krakkana ekki hafa haft heimild til þess að vera í sundlauginni, en Bakari segir þau öll hafa haft tilskilið leyfi. 

mbl.is