Leiðirnar tvær sem eru í boði

Kröfuhafar geta valið tvær leiðir. Skatt eða framlag.
Kröfuhafar geta valið tvær leiðir. Skatt eða framlag. mbl.is/Golli

Slitastjórnir föllnu bankanna geta valið um að fara tvær leiðir við uppgjör búanna samkvæmt þeirri áætlun sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans í dag um afnám hafta. Annað hvort fara þau leið stöðugleikaframlags eða greiða stöðugleikaskatt. Hvernig sem mál fara er gert ráð fyrir að það leysi þann vanda sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir.

Velji slitastjórnirnar, með samþykki kröfuhafa föllnu bankanna, að uppfylla stöðugleikaframlagið þurfa þær að greiða beint framlag í formi skuldabréf til ríkissjóðs, endurgreiða gjaldeyrislán ríkissjóðs og SÍ sem veitt voru nýju bönkunum, gefa út skilyrt skuldabréf sem þekur kröfur og önnur réttindi sem ekki er hægt að framselja beint til ríkisins, gera afkomuskiptasamning vegna heildarafkomu nýju bankanna sem mun renna beint í ríkissjóð, breyta gjaldeyrisinnlánum í staðlaða skuldabréfafjármögnun og að lokum framselja innlendar kröfur til Eignasafns Seðlabanka Íslands þar sem nafnverð krafna er umtalsvert hærra en bókfært virði.

Ákveði kröfuhafar að ganga ekki að þessum skilyrðum, þá munu búin þurfa að greiða stöðugleikaskatt, en hann verður 39% og leggst á 15. apríl á næsta ári og er til greiðslu í ágúst sama ár. Fari allir bankarnir þá leið er um að ræða 850 milljarða, en skattstofn stöðugleikaskattsins er um 2.250 milljarðar. Í kynningunni í dag kom fram að slitabúin eigi nú um 1.500 milljarða í lausu fé.

Eignir bankanna hafa aukist mikið síðustu árin. Í kynningunni í dag var ítrekað að aukningin gæti orðið allt að 200 milljarðar á næstu tveimur árum, sem hefði að óbreyttu veruleg neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð. Með stöðugleikaframlagi er þessi framtíðarvirðisaukning aftur á móti hlutleyst og komið í veg fyrir framtíðaráhættu vegna virðisaukningar búanna.

Þrotabú föllnu bankanna geta valið um tvær leiðir. Stöðugleikaframlag eða …
Þrotabú föllnu bankanna geta valið um tvær leiðir. Stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskatt. Mynd/skjáskot úr glærum af kynningarfundi
mbl.is