Allar aðgerðir stjórnvalda til að losa fjármagnshöftin beinast að þeim sem áttu verulegan þátt í að skapa þær aðstæður sem ógna efnahagslegri velferð almennings hér á landinu. Með áætlun stjórnvalda er forgangsraðað í þágu raunhagkerfisins og eru einkaréttarlegir hagsmunir látnir víkja fyrir þjóðarhagsmunum.
Þetta kom fram í máli Sigurðar Hannessonar, varaformanns framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta, á blaðamannafundi í Hörpu fyrr í dag. Hann sagði að lausn stjórnvalda fælist í því að ráðast á rót vandast. Slitabú fallinna fjármálastofnana myndu greiða fyrir losun haftanna. Í raun væri fordæmalaus staða leyst með fordæmalausum aðgerðum.
Hann sagði jafnframt að lausn stjórnvalda tryggði að snjóhengjan svonefnda ógnaði ekki lengur efnahagslegum stöðugleika og skapaði skilyrði fyrir frekari losun hafta í náinni framtíð.
Hver yrðu síðan áhrifin?
Sigurður sagði að heildarskuldir ríkissjóðs myndu lækka um tugi prósenta í kjölfarið. Það væri nauðsynlegt til að auka „viðnámsþrótt“ ríkissjóðs.
Stöðugleikaskatturinn umræddi rennur í ríkissjóð og á honum að vera ráðstafað til að lækka skuldir ríkissjóðs. Fyrst í stað verða eftirstöðvar skuldabréfs ríkissjóðs við Seðlabankann greiddar, en fram kom í kynningu Sigurðar og Benedikts Gíslasonar, sem einnig situr í framkvæmdahópnum, að bréfið hefði staðið í 145 milljörðum króna í lok árs 2014.
Þá á ráðherra, að undangenginni umsögn Seðlabankans, að kynna fyrir fjárlaganefnd Alþingis skýrslu um áætlaða nýtingu fjármunanna og áhrif þeirra meðal annars á efnahagslíf og fjármálamarkaði.
Sigurður benti á að árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs myndu lækka um tugi milljarða króna á ári til langframa. Það hefði ráðandi áhrif á stöðu ríkisfjármála.
Öðrum tekjum af skattinum yrðu síðan haldið aðskildum á sérstökum innlánsreikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum og yrðu þeir fjármunir nýttir til að greiða niður aðrar skuldir.
Þá verður þess sérstaklega gætt að ráðstöfun fjármunanna hafi ekki óæskileg áhrif á peningamagn eða önnur þensluhvetjandi áhrif sem gætu dregið úr efnahagslegum stöðugleika og myndu - að öllu óbreyttu - kalla á hærri vexti.
Sigurður benti loks á að fjármagnshöft og skuldastaða ríkissjóðs væru þeir tveir þættir sem hafa hvað mest áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins. Báðir þessir þættir myndu styrkjast við losun haftanna.
Sterkara lánshæfismat gæti aftur lækkað vaxtakostnað ríkissjóðs og það sem meira er, þá hefur lánshæfismat ríkisins ráðandi áhrif á lánshæfismat innlendra fyrirtækja. Það mat myndi einnig styrkjast í framhaldinu og draga úr vaxtakostnaði innanlands.