Ættingjar manns frá Pakistan sem hefur setið í fangelsi í ellefu ár fögnuðu í dag þegar að aftöku hans var frestað. Það var gert í kjölfar krafna þess efni að maðurinn hafi verið barn þegar að glæpur hans var framinn.
Maðurinn heitir Shafqat Hussain. Hann var dæmdur til þess að vera hengdur eftir að hann myrti sjö ára gamlan dreng í Karachi árið 2004. Aftökunni var frestað aðeins nokkrum klukkustundum áður en hún átti að fara fram.
Þetta er í fjórða skiptið á fimm mánuðum sem aftöku mannsins er frestað. Málið hefur vakið athygli mannréttindasamtaka og Sameinuðu þjóðanna.
Verjendur Hussain og fjölskylda hans halda því fram að hann hafi verið undir átján ára þegar morðið var framið og þar af leiðandi er ekki hægt að taka hann af lífi,
samkvæmt pakistönskum lögum. Þau halda því jafnframt fram að hann hafi verið pyntaður til þess að játa á sig morðið.
Bróðir hans, Manzoor Hussain, sagði frá því hvernig ættingjar þeirra hafi safnast saman í Muzaffarabad, sem er stærsti bær Kashmir héraðs, til þess að halda bænastund kvöldið sem Hussain átti að vera hengdur.
„Þegar við vorum látin vita klukkan 3 um nóttina að hann væri lifandi fundum við fyrir bylgju inn í okkur,“ sagði hann í samtali við AFP. „Við bjuggumst ekki við þessu, við vorum meira að segja búin að finna stað til þess að grafa hann í kirkjugarðinum í Muzaffarabad.“
Móðir Hussain segist alltaf hafa trúað því að guð myndi bjarga syni hennar. „Hjarta mitt segir mér að sonur minn sé saklaus,“ sagði hún í samtali við AFP. „Ég hneigi mig fyrir guði eftir þetta símtal. Guð mun bjarga lífi hans.“
Hæstiréttur í Pakistan mun nú rannsaka aldur Hussain þegar morðið var framið. Stuðningsmenn halda því fram að hann hafi verið 14 eða 15 ára þegar að hann myrti drenginn. Erfitt hefur verið að komast að því hversu gamall Hussain er í raun og veru. Í frétt AFP kemur fram að upplýsingar um fæðingar eru oft ekki geymdar í Pakistan, sérstaklega hjá fátækum fjölskyldum.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fjórðungur fæðinga í Pakistan eru skráðar opinberlega.
Hussain er yngstur sjö systkina. Hann starfaði sem öryggisvörður í Karachi árið 2004 þegar að sjö ára drengur hvarf frá heimili sínu í hverfinu. Nokkrum dögum seinna var hringt í foreldra drengsins úr farsíma Hussain sem sagðist vera með drenginn í haldi og krafðist lausnargjalds.
Hussain var handtekinn og hann játaði að hafa rænt og myrt drenginn. Síðar dró hann játninguna til baka og hélt því fram játningin hafi verið þvinguð.
Fyrri fréttir mbl.is: