Vilja að lögreglumaðurinn verði rekinn

Lögreglan dró upp byssu við sundlaugabakkann.
Lögreglan dró upp byssu við sundlaugabakkann. Skjáskot/Youtube

Hundruð manna tóku í gær þátt í mótmælum í borginni McKinney, rétt hjá Dallas í Texas, í kjölfar þess að birt var myndband af lögreglumanni að beina byssu sinni að ungmennum í sundlaugapartíi. Myndbandið var tekið upp á föstudag og á því má m.a. sjá lögreglumann halda 15 ára unglingsstúlku fastri á jörðinni með því að setja hné sitt í bak hennar.

Mótmælendur krefjast þess að lögreglumaðurinn, sem er hvítur, verði rekinn. Flest ungmennin í partíinu voru svört. Lögreglustjórinn í McKinney hefur sent lögreglumanninn í leyfi frá störfum.

Frétt mbl.is: „Þetta snérist um kynþátt“

Lögreglan í McKinney segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi verið kölluð út á föstudag þar sem að hópur fólks neitaði að yfirgefa sundlaugina þar sem partíið fór fram. Slagsmál hefðu brotist út og í kjölfarið hafi fleiri símtöl borist lögreglu.

Myndbandið af störfum lögreglunnar á vettvangi er sjö mínútna langt. Á því má m.a. sjá lögregluþjóninn hrópa ókvæðisorðum að ungmennunum, beina byssu sinni að öðrum, rífa í handlegg stúlku og halda henni svo fastri niðri á jörðinni. 

Stúlkan sagði í samtali við útvarpsstöðina KDFW að sér þætti ekki nóg að lögreglumaðurinn verði rekinn.

Í frétt BBC segir að um 800 manns hafi tekið þátt í mótmælagöngu í bænum McKinney, en þar búa um 150 þúsund manns.

Lögreglan í borginni hefur viðurkennt að það sem sjá megi á myndbandinu veki „áhyggjur“ og þurfi að rannsaka.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/bpWP8aMcOo8" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is