Innistæður aflandskrónueigenda sem ekki taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í haust verða settar inn á vaxtalausan reikning hjá Seðlabankanum. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra, á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag.
Var Már spurður á fundinum hvort að áhyggjur af aukinni verðbólgu og þenslu yrði ekki mætt með því að slaka aðeins á óopinberu fastgengi og leyfa raungengi að hækka. Slíkt myndi minnka samkeppnisstöðu landsins en á sama tíma halda aftur af verðbólgu og koma í veg fyrir vaxtahækkanir, eins og boðaðar voru í áliti peningastefnunefndar í dag.
Már svaraði því til að það væri ekki mögulegt þar sem hann teldi Seðlabankann áfram þurfa að kaupa gjaldeyri til að vera vel staddur fyrir losun hafta fyrir innlenda aðila. Þá þurfi Seðlabankinn einnig að nýta tækifærið núna til að bæta við gjaldeyrisforða sinn fyrir væntanleg útboð í haust til að hleypa út aflandskrónum. Í því sambandi sagði hann að þær innistæður sem eftir stæðu við lok útboðsins færu á reikninga með engri ávöxtun.
Áður hafði komið fram að slíkar innistæður yrðu „frystar á reikningum í mjög langan tíma,“ en Sigurður Hannesson, sem situr í aðgerðarhópi um afnám hafta, sagði að vextirnir yrðu ekki álitlegir á þær innistæður.