Birtu myndir af þeim grunaða

Hér má sjá manninn sem grunaður er um árásina.
Hér má sjá manninn sem grunaður er um árásina. Skjáskot af Sky

Lögregla í Charleston í Suður Karólínu f ylki Bandaríkjanna hefur nú birt fyrstu myndirnar af manni sem grunaður er um að hafa skotið níu manns til bana í kirkju í borginni í gærkvöldi. Mannsins er enn leitað en skotárásin var framin um klukkan 9 að staðartíma í gærkvöldi.

Sky News segir frá þessu. 

Að sögn lögreglu létust átta á staðnum en níunda fórnarlambið lést á sjúkrahúsi. Tíunda fórnarlambið er nú á sjúkrahúsi.

Lögreglustjórinn í Charleston, Gregory Mullen, staðfesti í samtali við fjölmiðla að árásin sé rannsökuð sem hatursglæpur. Hann hét því að öll orka lögreglunnar færi í það að finna árásarmanninn.

Talsmaður lögreglu greindi frá því að leitað væri að grannvöxnum karlmanni með skollitað hár og í grárri peysu, bláum gallabuxum og í Timberland skóm. Hann er talinn vera í kringum 21 árs gamall.

Þyrla lögreglunnar hefur tekið þátt í leitinni sem fer þó aðallega fram á jörðu niðri. Lögreglumenn hafa sést við leitina vopnaðir og í skotheldum vestum. FBI, alríkislögregla Bandaríkjanna tekur einnig þátt í rannsókn málsins.

Tökumenn fjölmiðla náðu myndum af lögreglu fylgja hvítum karlmann í gráum stuttermabol inn á Marriott hótel í nágrenni skotárásarinnar. Lögregla segist þó enn vera að leita að árásarmanninum. Fjölmiðlar í Charleston hafa grein frá því að kirkjan sem árásin var framin í sé 150 ára gömul og ein sú elsta í Bandaríkjunum. Flest sóknarbörn í kirkjunni eru svört.

Fréttastofan Fox News heldur því fram að biblíufræði séu kennd í kjallara kirkjunnar öll miðvikudagskvöld. Gera má ráð fyrir því að fólkið sem var myrt í gær hafi verið í kirkjunni vegna þess.

Þingmaðurinn Todd Rutherford sagði frá því í gær að meðal látinna væri þingmaðurinn Clementa Pinckney sem var jafnframt sóknarprestur í kirkjunni. 

Fyrri frétt mbl.is:

Níu féllu í skotárás í Charleston

Lögreglumenn að störfum í Charleston í gærkvöldi
Lögreglumenn að störfum í Charleston í gærkvöldi AFP
mbl.is