Níu féllu í skotárás í Charleston

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Níu manns féllu í skotárás í kirkju í borginni Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum í nótt. Umfangsmikil leit stendur nú yfir af byssumanninum, sem er talinn vera 21 árs gamall hvítur karlmaður.

Gregory Mullen, lögreglustjóri borgarinnar, segir að átta manns hafi líklegast verið skotnir til bana inn í kirkjunni en einn lét lífið til viðbótar stuttu síðar á sjúkrahúsi.

„Ég trúi því að þetta hafi verið hatursglæpur,“ sagði Mullen.

Talið er að sóknarprestur kirkjunnar, Clementa Pinckney, hafi verið á meðal þeirra sem féllu í árásinni, sem átti sér stað um klukkan 21 að staðartíma í gærkvöldi.

Joe Riley, borgarstjóri Charleston, lýsti árásinni sem „ólýsanlegum harmleik“.

Þyrlur sveimuðu yfir borgina í nótt, tiltölulega skömmu eftir að tilkynnt var um árásina. 

Kirkjan, Emanuel African Methodist Episcopal Church, er ein sú elsta í Bandaríkjunum.

Frétt BBC

mbl.is