„Ég fyrirgef þér“

Myndband: Bænastund í New York borg vegna ódæðisins í Charleston

Dylann Roof var alvörugefinn þegar hann var leiddur fyrir dómara í Suður-Karólínufylki Bandaríkjanna í dag. Roof er grunaður um að hafa skotið níu manns til bana í kirkju í Charleston. Roof svaraði einföldum spurningum í réttarsalnum, t.a.m. varðandi aldur, heimilsfang o.s.frv. áður en fjölskyldumeðlimir nokkurra fórnarlamba fengu að taka til máls.

„Ég mun aldrei fá að snerta hana aftur, en ég fyrirgef þér,“ sagði dóttir eins fórnarlambsins, Ethel Lance. „Þú særðir mig. Þú særðir fjölmarga, en guð fyrirgefur þér og ég fyrirgef þér,“ sagði hún ennfremur.

Felicia Sanders, móðir fórnarlambsins Tywönzu Sanders, tók einnig til máls. „Ég finn fyrir sársauka í hverri einustu taug líkamans og ég verð aldrei söm.“

Ríkisstjórinn Nikki Haley vill að Roof fái dauðarefsingu.
Ríkisstjórinn Nikki Haley vill að Roof fái dauðarefsingu. AFP

Ríkisstjóri Suður-Karólínu, Nikki Haley, sagði í samtali við NBC í dag vilja sinn standa til þess að Roof fengi dauðarefsingu. „Þetta er hatursglæpur og ekkert annað. Ég hef rætt við lögreglufulltrúa sem annast málið og þeir segjast hafa séð hreina illsku í augum Roofs. Vil viljum sannarlega að hann fái dauðadóm,“ sagði Haley.

Frétt mbl.is: Vildi aðskilnað hvítra og þeldökkra

Saksóknarinn í málinu, Scarlett A. Wilson, ávarpaði fjölmiðla í dómshúsinu fyrir stuttu. Þar sagði hún að fjölskyldur fórnarlambanna væru í forgangi og þær þyrftu svigrúm. „Við þurfum að gefa fjölskyldunum tíma og rúm til að syrgja. Þetta er ekki rétti tíminn til að ræða dauðarefsingar,“ sagði Wilson.

Roof kvartaði yfir því að „þeldökk­ir væru að taka yfir …
Roof kvartaði yfir því að „þeldökk­ir væru að taka yfir heim­inn“. AFP

Mikil reiði er víða í Bandaríkjunum vegna málsins, en talið er að um hatursglæp hafi verið að ræða. Þannig hafði hinn 21 árs gamli Roof m.a. ný­lega kvartað yfir því að „þeldökk­ir væru að taka yfir heim­inn“. Hann vildi „gera eitthvað fyrir hvíta kynþáttinn“ og óskaði eftir aðskilnaði milli svartra og hvítra. Bænastund fyrir fórnarlömb ódæðisins fór fram í New York borg í gærkvöldi.

Nýjar upplýsingar um málið herma að Roof hafi komið inn í kirkjuna í gegnum hliðardyr. Þar hafi hann eytt um klukkustund í safnaðarheimilinu áður en hann steig á fætur og viðhafði hatursfull ummæli við kirkjugest. Síðan lét hann til skarar skríða. 

Frétt The Guardian

Frétt CNN

Frétt Sky News

mbl.is