Vildi aðskilnað hvítra og þeldökkra

Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu.
Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu. AFP

Maðurinn sem er grunaður um að hafa myrt níu manns í sögufrægri kirkju í Suður Karólínu fylki Bandaríkjanna á miðvikudaginn kvartaði nýlega yfir því að „þeldökkir væru að taka yfir heiminn“. Þetta sagði vinur hans í samtali við fjölmiðla í gær.

NBC greinir frá þessu. 

Joseph Meek Jr. og Dylann Roof eru æskuvinir. Hann sagði í samtali við AP fréttastofuna að Roof hafi nýlega verið stóryrtur um mál Trayvon Martin og óreiðirnar í Baltimore í vor vegna andláts manns sem var í varðhaldi lögreglu. Trayvon Martin var ungur blökkumaður. Hann var myrtur af hvítum manni árið 2012. Martin var sautján ára gamall og var á leiðinni úr búð með nammi og safa þegar hann var skotinn af George Zimmerman. 

„Hann sagði að þeldökkir væru að taka yfir heiminn. Einhver þyrfti að gera eitthvað í því fyrir hvíta kynþáttinn,“ sagði Meek í samtali við AP. „Hann vildi aðskilnað á milli hvítra og svarta og ég sagði „Það á ekki að vera þannig“, en hann hélt áfram að tala um það.“

Roof er 21 árs gamall og kemur frá borginni Lexington í Suður Karólínu sem er í um tveggja tíma fjarlægð frá Charleston, þar sem árásin var framin á miðvikudaginn.

Hann var handsamaður í gær í Shelby í Norður Karólína og var hann fluttur aftur til Suður Karólínu. Lögregla hefur kallað árásina hatursglæp og fórnarlamb Roof, sem lifði árásina af, hefur lýst því hvernig árásarmaðurinn sagði þeldökka vera að „taka yfir landið“ á meðan hann skaut fólkið.

Roof var sendur í fangelsi í mars vegna eiturlyfjamáls. Hann var síðan handtekinn aftur mánuði seinna fyrir að vera á bílastæði verslunarmiðstöðvar í leyfisleysi. Hann var handtekinn 2. mars fyrir varðveislu eiturlyfja í kjölfar atviks í verslunarmiðstöð 28. febrúar. Öryggisverðir í verslunarmiðstöðinni fundu Roof þar sem hann var að spyrja starfsfólk „undarlegra“ spurninga. Hann var jafnframt klæddur í allt svart.

Hann spurði m.a. hversu margir ynnu í verslununum og hvenær þær lokuðu. Roof sagði í samtali við lögreglumann að foreldrar hans hefðu verið að segja honum að fá sér vinnu og hafi hann verið að skoða verslanir í þeim tilgangi.

Lögreglumaðurinn sagði að Roof hafi litið út fyrir að vera stressaður. Leitað var á manninum og þar fanst ómerkt lyfjaglas. Í glasinu var m.a. suboxone sem er lyf notað til þess að hjálpa fólki sem er háð ópíumefnum. Roof var í kjölfarið handtekinn og ákærður fyrir varðvörslu á lyfseðilskyldum lyfjum. Bifreið hans, Hyundai Elantra, var jafnframt dregin í burtu.

Roof var bannaður aðgangur að verslunarmiðstöðinni í ár en 26. Apríl var hann ákærður fyrir að vera þar í leyfisleysi. Hann fannst á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar og var í kjölfarið bannað að koma þangað næstu þrjú árin. 

Bifreiðin sem var dregin í burtu í mars er sú sama og árásarmaðurinn notaði til þess að flýja kirkjuna á miðvikudaginn eftir árásina.

Þegar að leitin að árásarmanninum var að ná hámarki sagði frændi Roof í samtali við Reuters að hann þekkti manninn á myndunum af hinum grunaða sem lögregla hafði birt. Það var frændi hans. Frændi Roof, Carson Cowles, sagði að lögregla væri á heimili Roof og að hann hafi fengið skammbyssu í afmælisgjöf frá pabba sínum í apríl. Í samtali við MSNBC sagði Cowles að hann vonaði að Roof fengi það sem hann ætti skilið.

„Við sáum þetta ekki fyrir,“ sagði hann. „Okkur grunaði ekki neitt. Ég mun segja þetta: Ég vona að hann fái það sem hann á skilið. Þeir eru með hann núna.“

Hann bætti jafnframt við að ekki aðeins hafi Roof eyðilagt líf níu einstaklinga heldur sé hann einnig búinn að eyðileggja fjölskyldu sína.

Fórnarlambanna hefur verið minnst fyrir utan kirkjuna.
Fórnarlambanna hefur verið minnst fyrir utan kirkjuna. AFP
Kirkjan er ein elsta kirkja Bandaríkjanna.
Kirkjan er ein elsta kirkja Bandaríkjanna. AFP
mbl.is