„Ég á engra annarra kosta völ“

Hér sést Dylann Roof brenna bandaríska fánann.
Hér sést Dylann Roof brenna bandaríska fánann.

Yfirlýsing sem maðurinn sem myrti níu manns í Charleston í Suður-Karólínu í liðinni viku skrifaði áður en hann framdi ódæðið, og myndir af honum hafa nú skotið upp kollinum á netinu.

Í yfirlýsingunni, sem hinn 21 árs gamli Dylann Roof birti á vefsíðu sem var skráð á hans nafn fyrr á þessu ári, útskýrir hann hann ástæðu árásarinnar. „Ég á engra annarra kosta völ.“

Þá má sjá hann brenna bandaríska fánann á myndunum og halda á lofti fána Suðurríkjanna, sem er af mörgum sagður táknmynd fordóma og haturs í garð minnihlutahópa í Bandaríkjunum, á plantekru þar sem áður unnu þrælar í ánauð.

Lögregla rannsakar nú vefsíðuna, en Roof var handtekinn á fimmtudag og ákærður fyrir níu morð eftir að hann hóf skot­hríð í kirkju í Char­lest­on í Suður Karólínu fylki Banda­ríkj­anna á miðviku­dag.

Fáni Suðurríkjanna er af mörgum sagður táknmynd fordóma og haturs …
Fáni Suðurríkjanna er af mörgum sagður táknmynd fordóma og haturs í garð minnihlutahópa í Bandaríkjunum.

Í yfirlýsingunni lýsir Roof fyrirætlunum sínum, og útskýrir meðal annars hvers vegna hann valdi að fremja ódæðið í Charleston. „Ég er ekki í þeirri stöðu einn að ég geti farið inn í gettóið og barist. Ég vel Charleston því það er sögufrægasta borgin í fylkinu mínu, og þar bjuggu á einum tímapunkti flestir svartir miðað við hvíta í landinu.“

Þá fordæmir Roof það að ekki séu nógu margar öfgahreyfingar í Suður Karólínu. „Við eigum enga nýnasista, enga alvöru KuKluxKlan hreyfingu, engan sem gerir neitt nema talar á internetinu. Einhver verður að hafa kjarkinn til að færa það yfir á raunveruleikann, og ætli það þurfi ekki að vera ég.“

Þá segir Roof að hann hafi ekki alist upp á rasísku heimili, en hans fordómar hafi komið upp í kringum Trayvon Martin málið, þegar 17 ára gamall þeldökkur drengur var skotinn til bana. Eftir það hafi hann farið að lesa sig til um kynþætti á netinu og komist að þeirri niðurstöðu að svartir væru „stærsta vandamálið“.

„Svart fólk er meðvitað um kynþætti nánast frá fæðingu, en hvítt fólk hugsar venjulega ekki um kynþætti í sínu daglega lífi. Og þetta er okkar vandamál. Við þurfum og við verðum,“ skrifaði hann.

Lögregla rannsakar árásina sem hatursglæp, en að sögn vitna stóð Roof upp í kirkjunni og sagðist vera kominn „til þess að skjóta svart fólk“. Þá hefur vinur hans, Joseph Meek, sagt í sam­tali við fjöl­miðla að Roof hefði sagt að „þeldökk­ir væru að taka yfir heim­inn“. 

mbl.is