Heildarábati af uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni er 82 til 123 milljarðar króna að teknu tilliti til næmnigreininga og að gefnum ákveðnum forsendum. Þar með er þó ekki öll sagan sögð en talan endurspeglar eingöngu ábata flugfarþega vegna breytts fyrirkomulags innanlands- og millilandaflugs og ábata vegna uppbyggingar í Vatnsmýri.
Ekki er tekið tillit til stofn-, fjárfestingar- og rekstrarkostnaðar millilanda- og innanlandsflugvalla í niðurstöðunum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Rögnunefndarinnar svonefndu. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga, sé besti flugvallarkosturinn komi til þess að Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr Vatnsmýrinni.
Frétt mbl.is: Hvassahraun kemur best út
Í skýrslunni er bent á að til að svara því hvort Hvassahraunsflugvöllur sé þjóðhagslega hagkvæmur kostur skipti máli hvort stofn- og rekstrarkostnaður flugvallar í Hvassahrauni og tengdra innviða, sem innihéldi bæði innanlands- og millilandaflug, sé meiri en fyrirhuguð fjárfestingarþörf, rekstrar- og viðhaldskostnaður á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, til frambúðar.
„Ef núvirtur mismunur alls kostnaðar við Hvassahraunsflugvöll og alls kostnaðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll til framtíðar er minni en sá heildarábati sem hér hefur verið nefndur er uppbygging flugvallar í Hvassahrauni þjóðhagslega hagkvæmur kostur.
Með öðrum orðum má Hvassahraunsflugvöllur vera 82-123 milljörðum dýrari en allur kostnaður vegna Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar, áður en bygging flugvallar í Hvassahrauni verður þjóðhagslega óhagkvæm fjárfesting.
Í því er gengið út frá þeirri forsendu að allt innanlands- og millilandaflug sameinist á vellinum og hægt sé að spara á móti á öðrum völlum. Til að fá botn í það hvort flugvöllurinn er hagkvæmur kostur þarf hins vegar að ákvarða fjárfestingarþörf á Keflavíkurflugvelli, stofn- og rekstrarkostnað Hvassahraunsflugvallar og nauðsynlegra innviða og áætla hvernig vellirnir tveir myndu vinna saman,“ segir í skýrslunni.
Niðurstaðan sýni þó að samlegðaráhrif innanlands- og millilandaflugs yrðu til bóta fyrir þjóðina að gefnum forsendum, þ.e. að Íslendingar myndu hagnast af því að hafa aðgang að innanlands- og millilandaflugi á sama stað á höfuðborgarsvæðinu.