Nálgunarbann ofbeldismanns stytt

Manninum er gert að yfirgefa heimili sitt og sæta nálgunarbanni …
Manninum er gert að yfirgefa heimili sitt og sæta nálgunarbanni í fjórar vikur vegna ofbeldis sem hann hefur beitt eiginkonu sína. Myndin er sviðsett. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hæstiréttur stytti nálgunarbann sem lögreglustjórinn á Suðurlandi ákvað yfir manni sem beitti eiginkonu sína ofbeldi á heimili þeirra fyrir framan tvö ung börn þeirra úr sex mánuðum í fjórar vikur. Manninum er samkvæmt dómi Hæstaréttar vikið af heimilinu í fjórar vikur og hann má ekki nálgast konuna í jafnlangan tíma.

Maðurinn kærði ákvörðun lögreglustjórans til Héraðsdóms Suðurlands sem staðfesti hana. Samkvæmt henni var manninum gert að yfirgefa heimili sitt, þar sem hann býr með eiginkonu sinni og tveimur börnum þeirra, 5 og 9 ára í fjórar vikur. Jafnframt var honum gert að sáta nálgunarbanni gagnvart konunni í sex mánuði.

Úrskurð Héraðsdóms kærði maðurinn til Hæstaréttar sem staðfesti þá ákvörðun að maðurinn skyldi yfirgefa heimilið en komst að þeirri niðurstöðu að nálgunarbannið skyldi standa í jafnlangan tíma, fjórar vikur. 

Sagði vitni ljúga upp á sig sökum

Fram kom að maðurinn hafi beitt konuna ofbeldi undanfarin ár. Ofbeldið hafi falist í því að hann hafi slegið og sparkað í hana, þ.á m. þegar hún hafi legið í gólfinu, hent henni til og ítrekað kýlt hana með krepptum hnefa í andlit og höfuð. Börn þeirra hafi orðið vitni að ofbeldinu, og auk þess vinir þeirra í a.m.k. tvö síðustu skiptin sem ofbeldi hafi átt sér stað.

Konan hafi skýrt frá því að ofbeldishegðun mannsins hafi stigmagnast nú undanfarið, jafnhliða aukinni drykkju hans. Nú væri svo komið að bæði hún og börnin óttuðust manninn, og reyndu öll að láta lítið fyrir sér fara í þeirri von að þannig tækist að halda friðinn á heimilinu.

Sjálfur hafnaði maðurinn öllum ásökunum um að hafa beitt konuna ofbeldi og sagði hana þvert á móti hafa verið ofbeldisfulla gagnvart sér og börnum þeirra. Sagði hann vitni að ofbeldi hans gegn konunni ljúga upp á hann sökum.

mbl.is