Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, segir mikilvægt að rekstrarskilyrði flugvallarins í Vatnsmýri verði tryggð á meðan aðrir flugvallarkostir, svo sem Hvassahraunið, eru skoðaðir.
„Það er mikilvægt að menn hrófli ekki við þeim skilyrðum á meðan ekki er komin niðurstaða í málið,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Að mati Rögnunefndarinnar svokölluðu, sem skilaði skýrslu sinni í dag, er Hvassahraun, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga, sá flugvallarkostur sem hefur mesta þróunarmöguleika til framtíðar.
Árni segist ekki hafa kynnt sér skýrsluna ítarlega. Næstu dagar fari í það. Greinilegt sé þó að mikil vinna sé framundan að kanna þann flugvallarkost betur.
Rögnunefndin leggur til að flugvallarskilyrði í Hvassahruani verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum næsta vetur auk þess sem rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar verði metin. Náist samstaða um það leggur hún til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni.
Árni segir að við fyrstu sýn virðist sem ýmsir þróunarmöguleikar séu til staðar í Hvassahrauni, eins og fram kemur í skýrslunni. En á meðan þeir möguleikar séu skoðaðir, þá sé mikilvægt að tryggja rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.
„Við fyrstu sýn er mikilvægt að leggja áherslu á að rekstrarskilyrðin séu í lagi og verði tryggð á meðan ekki er komin önnur niðurstaða en að halda áfram í Vatnsmýrinni,“ segir hann.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði á blaðamannafundi fyrr í dag, þar sem skýrslan var kynnt, að ef vilji væri til að skoða alvarlega flutning flugvallarins í Hvassahraun, þá væri vilji hjá Reykjavíkurborg til að tryggja rekstrarumhverfi flugvallarins í Vatnsmýrinni meðan það ferli væri í gangi. „Ef það getur orðið til þess að það verði sátt um að fara í þennan leiðangur, þá finnst mér það algjörlega þess virði og meira en það,“ sagði Dagur.
Aðspurður segir Árni að óvissan sem hefur skapast vegna áforma og deilna um framtíð Reykjavíkurflugvallar hafi haft bein áhrif á starfsemi Flugfélags Íslands.
„Hún hefur haft þau áhrif að öll uppbygging hefur ekki verið leyfð, ef svo má segja, hvort sem það séu byggingar eða aðrar framkvæmdir. Það hefur auðvitað verið vont að mörgu leyti að geta ekki horft til framtíðar. Það er ekki góð staða.“