„Við eigum eftir að fara betur yfir þessa skýrslu og ræða efni hennar,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til vinnu stýrihóps ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair.
Fram kemur meðal annars í niðurstöðum hópsins það álit að Hvassahraun, sem er að hluta í landi Hafnarfjarðar, sé besti kosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll, en nefndinni var falið að kanna aðra kosti en Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri.
Haraldur segir þörf á því að skoða þessa niðurstöðu betur og fara yfir bæði kosti og galla þess að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. „Við munum fljótlega óska eftir því að nefndin komi á fund bæjarráðs til þess að kynna skýrsluna og svara spurningum.“
Spurður hvort niðurstaða nefndarinnar hafi komið honum á óvart kveður Haraldur nei við. „Miðað við þá staði sem voru til skoðunar kom þetta mér ekki mjög á óvart en hvort þetta sé eitthvað sem Hafnfirðingar vilja veit ég ekki. Það hefur ekki verið skoðað.“
Aðspurður segir hann ekki útilokað að leita álits íbúa í þessu máli.
„Fljótt á litið finnst mér það ekkert óeðlilegt. Þetta svæði er ekki langt frá stóru íbúahverfi í Hafnarfirði sem í dag telur um 5.000 íbúa,“ segir hann.