Þúsundir mættu í útför kattar

Tama var virðuleg læða.
Tama var virðuleg læða. Af Twitter

Einu sinni var hún villikött­ur á göt­um Wakayama í Jap­an. Síðar fékk hún stórt hlut­verk á lest­ar­stöðinni og fyr­ir átta árum var hún út­nefnd yf­ir­maður stöðvar­inn­ar, eða rétt­ara sagt yfir­kött­ur. En nú er Tama gamla dauð, sex­tán ára að aldri. Talið er að um 3.000 manns hafi mætt í út­för henn­ar á sunnu­dag, seg­ir í frétt um málið í The Guar­di­an.

Er Tama fékk stöðu lest­ar­stöðvar­stjóra varð hún fræg á einni nóttu. Hún er án efa einn fræg­asti kött­ur Jap­ans fyrr og síðar.

Marg­ir syrgja því læðuna enda fannst fólki hún auðga líf þess. Tama varð einnig til þess að lest­ar­stöðin sem hafði tapað millj­ón­um doll­ara á hverju ári, varð ein sú vin­sæl­asta enda vildu marg­ir koma þangað til að sjá Tömu með stöðvar­stjóra­hatt­inn sinn. Hún varð einnig til þess að ferðamennska í ná­grenn­inu blómstraði. 

Yf­ir­maður lestar­fyr­ir­tæk­is­ins heim­sótti Tömu rétt áður en hún drapst. Þó að hún væri orðin mjög lúin og veik þá stóð hún upp fyr­ir yf­ir­manni sín­um og mjálmaði í átt til hans. 

Bæj­ar­stjór­inn sagðist mjög sorg­mædd­ur er Tama féll frá. „Tama var mjög vin­sæl og var al­gjör of­ur­stjarna í ferðaþjón­ust­unni hérna. Ég er mjög sorg­mædd­ur en full­ur þakk­læt­is,“ sagði hann.

Útför Tömu fór svo fram á sunnu­dag og talið er að um 3.000 manns hafi komið til að kveðja hana. Nú er ann­ar kött­ur kom­inn í henn­ar stað á lest­ar­stöðinni, Nitama. Hann fær þó ekki sama titil held­ur er hann kallaður „stöðvar­meist­ari“.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://embed.theguardian.com/embed/video/world/video/2015/jun/29/tama-the-cat-stationmaster-japan-video" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is