Stephanie Rawlings-Blake, borgarstjóri Baltimore, hefur rekið lögreglustjóra borgarinnar Anthony M. Batts úr starfi sínu aðeins klukkustundum eftir að skýrsla lögreglusambands borgarinnar kom út um mótmælin og óeirðirnar í Baltimore.
Í skýrslunni er Batts gagnrýndur harðlega fyrir störf sín og stjórnun á meðan á óeirðunum stóð. Upphaf óeirðanna má rekja tili óánægju almennings eftir að ungur óvopnaður blökkumaður lést í haldi lögreglu í apríl á þessu ári.
Borgarstjórinn réð Batts til starfa árið 2012 en áður hafði hann gegnt starfi lögreglustjóra í Oakland í Kaliforníu en var látinn fara þaðan eftir einmitt óánægju með störf hans við óeirðir í borginni.
Lögreglusambandið og margir lögregluforingjar hafa lýst yfir óánægju með störf Batts og segja hann hafa viljað að lögreglan myndi halda að sér höndum á meðan á óeirðunum stóð. Telja þeir það hafa meðal annars leitt til aukningar ofbeldis á meðal mótmælenda.
Sjá frétt New York Times.