Lést eftir að hafa fengið á sig piparúða

Lögregla notaði piparúða á manninn. Mynd úr safni.
Lögregla notaði piparúða á manninn. Mynd úr safni. Ómar Óskarsson

Maður lést í Alabama í Bandaríkjunum seint í gærkvöldi eftir að piparúði var notaður á hann af lögreglumanni. Samkvæmt frétt NBC fékk lögregla í Tuscaloosa tilkynningu seint í gær þar sem fram kom að maðurinn væri grunaður um að hafa reynt að komast undan handtökuskipun. Lögregla fékk upplýsingar þess efnis að maðurinn sæti fyrir utan heimili í bænum og héldi á byssu.

Þegar að  lögreglumenn komu á staðinn flúði sá grunaði inn í skóginn. Lögreglumenn náðu honum og þegar hann streittist á móti var piparúði notaður á manninn.

„Sá grunaði hélt áfram að slást við lögreglumenn sem náðu á endanum að handjárna hann,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar í Tuscaloosa. „Á leiðinni úr skóginum féll sá grunaði í jörðina. Lögreglumenn notuðu endurlífgunaraðgerðir á manninn og kölluðu eftir hjálp.“

Farið var með hinn grunaða á sjúkrahús þar sem hann lést. Málið er nú í rannsókn.

Samkvæmt frétt NBC er það sjaldgæft að fólk láti lífið vegna piparúða. Vitnað er í rannsóknarskýrslu frá árinu 2004 þar sem fram kemur að piparúði geti valdið sviða, bólgu, roða og blöðrum á húð. Þar að auki getur það valdið hjartaáfalli að anda að sér úðanum.

mbl.is