16 ára skotinn af lögreglu

Lögreglumenn í Missouri. Mynd úr safni.
Lögreglumenn í Missouri. Mynd úr safni. AFP

Unglingsdrengur var skotinn eftir að hann beindi byssu að lögreglumönnum í St. Louis borg í Missouri í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Drengurinn særðist alvarlega og var fluttur á sjúkrahús.

Atvikið átti sér stað fyrir utan húsaþyrpingu í norður hluta borgarinnar. Lögreglustjóri St. Louis, Sam Dotson, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að atvikið hefði náðst á upptöku eftirlitsmyndavélar.

Að sögn Dotson voru lögreglumenn kallaðir út vegna tilkynninga vegna aðila með stolna byssu. „Sá grunaði byrjaði að hlaupa, sá lögreglumenn, sneri sér við, hljóp í aðra átt, að lögreglumönnunum,“ lýsti Dotson. „Lögreglumennirnir sáu byssu í hendi hans. Þeir óttuðust um sitt eigið öryggi og einn lögreglumaður skaut hinn grunaða fjórum sinnum.“

Drengurinn særðist á höfði, handlegg og hlaut jafnframt alvarlegt skotsár á kviðnum. Farið var með hann á sjúkrahús í alvarlegu en stöðugu ástandi. 

Að sögn Dotson var drengurinn í um 4-6 metra fjarlægð frá lögreglumönnunum þegar hann var skotinn.

Lögreglumaðurinn sem skaut drenginn er 29 ára gamall. Hann hefur verið lögreglumaður í um sjö ár. Dotson gaf ekki upp nafn mannsins en hann verður í leyfi á meðan málið verður rannsakað.

Frétt CBS um málið.

mbl.is