Hann er mjög krúttlegur, arnarunginn sem ljósmyndarinn Jeff Cremer náði mynd af í Amazon frumskóginum í Perú á dögunum. Unginn er svokallaður harpy-örn og eyðir hann fyrsta árinu í hreiðri móður sinnar. Harpy-ernir eru risavaxnir fuglar og geta þeir orðið tæplega 1 metra háir og vænghaf þeirra getur verið 1,8 metrar.
Sagt er frá myndum Cremer á fréttaveitu Yahoo.
Harpy-ernir halda til í myrkustu hlutum regnskógarins og þar af leiðandi er mjög sjaldgæft að sjá þá á ferðinni. Cremer sagði í samtali við tímaritið Live Science að margir fuglaáhugamenn í Perú nái aldrei að sjá örninn.
„Þetta er næstum því jafn sjaldgæft og að sjá einhyrning,“ sagði Cremer.
Það er óhætt að segja að unginn sé sætur en hann er þrátt fyrir það hættulegur bráð sinni. Áður en hann yfirgefur hreiðrið er hann búinn að læra að veiða og drepa en helstu fórnarlömb harpy-arnarins eru letidýr og apar.
Fleiri myndir af unganum og mömmu hans má sjá hér.