Tekin af lífi fyrir morð á kennara

Alaa Bader al-Hashemi sást á öryggismyndavélum fara inn á salernið …
Alaa Bader al-Hashemi sást á öryggismyndavélum fara inn á salernið í verslunarmiðstöðinni þar sem hún myrti kennarann. AFP

Þrítug kona í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var tekin af lífi í morgun fyrir að hafa myrt bandarískan kennara í verslunarmiðstöð í Abu Dhabi.

Alaa Bader al-Hashemi var tekin af lífi við sólarupprás eftir að forseti landsins, sjeik Khalifa bin Zayed al-Nahyan staðfesti dauðadóminn sem var kveðin upp í síðasta mánuði.

Hashemi var dæmd til dauða eftir að hafa verið fundin sek um að hafa stungið Ibolya Ryan, 47 ára, til bana á salerni í verslunarmiðstöðinni þann 1. desember sl. Ryan var þriggja barna móðir, segir í frétt AFP.

Hashemi var einnig fundin sek um að hafa komið heimatilbúinni sprengju fyrir utan heimili læknis þann sama dag. Sprengjan sprakk hins vegar ekki. Eins var hún fundin sek um að hafa notað netið til þess dreifa áróðri um Sameinaða furstadæmið og að hafa sent fjármagn til Al-Qaeda í Jemen vitandi að peningarnir yrðu notaðir til þess að fjármagna hryðjuverk.

Um var að ræða dóm hæstaréttar og því var ekki hægt að áfrýja niðurstöðunni en forseti landsins verður að staðfesta dómadóminn. 

Myndir náðust af Hashemi fara inn og út af salerninu þar sem morðið fór fram og var hún handtekin tveimur sólarhringum síðar. Hún var svartklædd frá toppi til táar er hún framdi morðið og einnig þegar hún kom sprengjunni fyrir. Myndir náðust einnig af henni að koma sprengjunni fyrir. Hún var handtekin á heimili sínu og í bifreið hennar fannst blóð á stýrinu. Eins var þar að finna búnað til sprengjugerðar. 

Við réttarhöldin óskaði Hashemi eftir því að fá aðstoð geðlæknis þar sem hún sæi sýnir og að hún glímdi við geðraskanir. Niðurstaða geðrannsóknar leiddi hins vegar í ljós að hún gerði sér fyllilega grein fyrir því hvað hún var að gera þegar hún framdi ódæðið.

Dæmd til dauða fyrir morðið á kennaranum

mbl.is