Hefja aftökur að nýju

Lyfið midazolam er notað við aftökur
Lyfið midazolam er notað við aftökur

Missouri ríki tók í gærkvöldi fanga af lífi með banvænni sprautu. Þetta er fyrsta aftakan í Bandaríkjunum frá því hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu að nota mætti umdeild lyf við aftökur.

Klukkan 19:41 að staðartíma, klukkan 00:41 að íslenskum tíma, var David Zink, 55 ára, úrskurðaður látinn. Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjagjöf, segir talsmaður fangelsismála í Missouri, Mike O'Connell. Aftakan fór fram í Bonne Terre fangelsinu.

Zink var dæmdur til dauða fyrir að hafa nauðgað og myrt unga konu sem hann nam á brott eftir bílslys í júlí 2001. Alls greiddu fimm af níu atkvæði með því í hæstarétti að nota mætti lyfið þrátt fyrir að upp hafi komið tilvik þar sem aftakan tók langan tíma og olli föngum miklum kvölum. Var það niðurstaða fimm hæstaréttardómara að ekki hafi tekist að fullsanna að lyfið midazolam gæti valdið miklum kvölum. Fjórir dómarar voru hins vegar á öðru máli.

Zink er átjándi fanginn sem er tekinn af lífi í Bandaríkjunum í ár. Stefnt er að því að taka annan fanga af lífi á morgun í Texas.

mbl.is