Íslenskir lífeyrissjóðir þurfa að fjárfesta fyrir um níu til tíu milljarða króna erlendis á hverju ári til að viðhalda núverandi hlutfalli erlendra eigna sjóðanna. Til að þetta hlutfall hækki þarf árleg fjárfesting hins vegar að vera meiri, en af samanburði við sambærileg lífeyriskerfi annarra landa ætti það að vera að minnsta kosti 40%.
Seðlabanki Íslands tilkynnti í gær að fyrirhugað væri að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta út fyrir landsteinana síðar á þessu ári. Samanlagt mun heimildin vera tíu milljarðar króna, en vel kemur til greina að rýmka hana strax á næsta ári ef svigrúm gefst. Á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar vegna haftaáætlun hennar í seinasta mánuði kom fram að sjóðirnir fengju að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna á ári næstu fimm árin.
Lífeyrissjóðirnir hafa ekki mátt fjárfesta erlendis frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á haustið 2008.
Í bók Dr. Ásgeirs Jónssonar, dósents við hagfræðideild Háskóla Íslands, og Dr. Hersis Sigurgeirssonar, dósents við viðskiptafræðideild sama skóla, Áhættudreifing eða einangrun?, sem kom út á síðasta ári á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða, kemur fram að erlent eignahlutfall lífeyrissjóðanna hafi náð hæst í um 30% á árunum 2006 til 2010 en hafi síðan farið lækkandi. Nú er það um 24%.
Skýrsluhöfundar segja skýrlega að rúmlega fimmtungshlutfall erlendra eigna sé allt of lágt samkvæmt öllum þeim viðmiðum sem hægt sé að leggja til grundvallar. Er því lagt til að tryggt verði að hlutfall erlendra eigna sjóðanna af heildareignum sínum lækki ekki frekar. Það verði gert með því að fjórðungi af hreinu innflæði til sjóðanna verði ávallt ráðstafað til erlendra fjárfestinga.
Hreint innflæði til sjóðanna er nú um fjörutíu milljarðar á ári og þarf því að fjárfesta um níu til tíu milljörðum erlendis til þess að viðhalda núverandi eignahlutfalli, líkt og ríkisstjórnin hefur nú lagt til.
Reyndar er bent á í bókinni að hægt sé að leiða út þá einföldu þumalfingursrelglu að lífeyrissparnaður eigi að hafa sömu myntsamsetningu og almenn einkaneysla viðkomandi lands, sem fyrir Ísland er um 40-50%. Því sé hægt að líta á þetta hlutfall sem lágmarkshlutfall erlendra eigna í safni íslenskra lífeyrissjóða.
Þar segir einnig að hið rétta hlutfall erlendra eigna sé háð ýmsum forsendum. En þó svo að gert sé ráð fyrir að innlend verðbréf skili betri ávöxtun en erlend, þá sé niðurstaðan sú að hlutfall erlendra eigna ætti aldrei að vera undir 30%. Sé gert ráð fyrir sömu væntu ávöxtun innlendra og erlendra bréfa ætti hlutfallið ekki að vera undir 40%.
Sé að auki tekið tillit til sértækra áhættuþátta íslenska verðbréfamarkaðarins, svo sem smæðar hans, má leiða líkur að því að æskilegt hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna sé jafnvel enn hærra.
Þá leiðir samanburður við eignasöfn erlendra lífeyrissjóða í ljós að í löndum með sambærileg lífeyriskerfi og á Íslandi er hlutfall erlendra eigna um 40% og víða er það mun hærra. Sem dæmi er hlutfall erlendra eigna norska lífeyriskerfisins, að olíusjóðnum meðtöldum, um 93%.
Fréttir mbl.is:
Opna á erlendar fjárfestingar