Hægt verður að setja á viðskiptaþvinganir gagnvart Írönum á nýjan leik ef þeir standa ekki við samkomulagið sem náðist á þriðjudaginn um kjarnorkuáætlun landsins.
Ákvæði þess efnis má finna í samkomulaginu, en það mun gilda í fimmtán ár, samkvæmt bréfi sem AFP hefur undir höndum.
Samkvæmt tíu ára samkomulaginu sem náðist á milli Írans og stórveldanna sex á þriðjudaginn verður efnahagslegum refsiaðgerðum gagnvart Írönum aflétt gegn því að Íranir hægi á kjarnorkuáætlun sinni og komi sér til að mynda ekki upp kjarnorkuvopnum.
En ákvæðið um að hægt sé að setja viðskiptaþvinganir á að nýju, ef Íranir standa ekki við samkomulagið, þykir heldur óvenjulegt, að mati sérfræðinga.
Gert er ráð fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki á næstu dögum stuðningsyfirlýsingu við samkomulagið. Deila um kjarnorkuáætlun Írana hefur staðið yfir frá því árið 2002. Stórveldin sex hafa lengi óttast að Íranir hyggist koma sér upp kjarnorkuvopnum.