Firðir á Vestur-Grænlandi eru mun dýpri en áður var talið og það gæti þýtt að Grænlandsjökull muni bráðna umtalsvert hraðar en gert hefur verið ráð fyrir. Yfirborð sjávar myndi hækka um allt að sex metra af íshellan hverfur ef völdum hnattrænnar hlýnunar.
Rannsóknin sem leiðir þetta í ljós hefur farið í gegnum jafningjarýni og verður birt í ritinu Geophysical Research Letters. Samkvæmt henni teygja firðirnir sig á sumum stöðum að meðaltali 200-300 metrum lengra inn í landið en menn höfðu áður talið. Jöklafræðingar frá Kaliforníuháskóla eyddu þremur árum í að rannsaka strandlínuna undir jöklinum. Til þess notuðu þeir meðal annars endurvarp hljóðbylgna til þess að kanna sjávarbotninn við jökulinn.
Lögun og dýpt fjarðanna hefur mikil áhrif á íshelluna sem bráðnar bæði að ofan vegna hlýrra lofts og að neðan fyrir tilstilli hlýnandi sjávar.
„Eftir því sem hann bráðnar hraðar þá getur hann runnið á haf út,“ segir Eric Rignot, aðalhöfundur rannsóknarinnar og jöklafræðingur við Kaliforníuháskóla í Irvine við Washington Post.
Dýpri firðir þýði að hlýr sjór eigi greiðari leið að jöklinum. Grynnri firðir séu ekki eins hættulegir fyrir jökulinn.
Rignot telur að vísindamenn þurfi að breyta áætlunum sínum um hversu hratt yfirborð sjávar mun rísa vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir þessari breytu í núverandi líkönum. Þetta sé aðeins einn liður í því að menn hafi vanmetið þá hækkun yfirborðs sjávar sem eigi sér stað og muni eiga sér stað í framtíðinni.
Frétt Washington Post um rannsóknir á Grænlandsjökli