Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, hefur hvatt leiðtoga heims til að komast að málamiðlun um aðgerðir í loftslagsmálum. Hann segir pólitísk álitaefni torvelda þeim vinnuna sem sitja við samningaborðið.
„Við ráðherrar verðum nú að komast að málamiðlun um stóru pólitísku málefnin,“ sagði Fabius. „Þannig munu viðræðurnar þokast áfram.“
Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, sem fram fer 30. nóvember til 11. desember nk., er beðið með mikilli eftirvæntingu, en þar munu 196 ríki freista þess að ná samkomulagi til að takmarka áhrif loftslagsbreytinga.
Um þessar mundir er aðeins um að ræða 86 blaðsíðna samantekt yfir tillögur og álitaefni, en Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) sagði frá því fyrr í dag að fyrri hluti árs 2015 hefði verið sá heitasti í sögu jarðarinnar, og löngu orðið ljóst að raunverulegra aðgerða er þörf.
Fabius lagði hart að leiðtogum að freista þess að ná saman um tvö málefni: hversu mikið ríki heims þurfa að draga úr kolefnalosun og við hvað á að miða, og hvernig deila á ábyrgðinni milli ríkja.
Í september munu ráðherrar og hátt settir embættismenn funda í París um þriðja deiluefnið; það er peninga. Á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2009 var ákveðið að fátækari ríki heim fengju árlega fjárhagsaðstoð til að draga úr losun og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga frá og með 2020. Ennþá er eftir að útfæra hvaðan peningarnir eiga að koma, hvernig á að skipta þeim niður og fylgjast með ráðstöfun þeirra.